Sóley Margrét og Höskuldur íþróttakona og íþróttakarl Kópavogs

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri, Sóley Margrét Jónsdóttir, íþróttakona Kópavogs árið 2022 og Sver…
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri, Sóley Margrét Jónsdóttir, íþróttakona Kópavogs árið 2022 og Sverrir Kári Karlsson formaður íþróttaráðs Kópavogs,. Höskuldur Gunnlaugsson var staddur erlendis og gat því ekki tekið við viðurkenningu sem íþróttakarl ársins 2022.

Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrnumaður úr Breiðabliki og Sóley Margrét Jónsdóttir kraftlyftingakona úr Breiðabliki voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2022.

Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Íþróttahúsi Smáranum miðvikudaginn 11. janúar. Fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs afhenti þeim hvoru um sig 250 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.

Höskuldur og Sóley Margrét voru valin úr hópi 45 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.

Íbúum gafst eins og undanfarin ár kostur á því að taka þátt í valinu.

Nánar:

Höskuldur Gunnlaugsson

Höskuldur var fyrirliði meistaraflokks Breiðabliks í knattspyrnu karla sem varð íslandsmeistari með miklum yfirburðum árið 2022. Hann spilaði allar mínútur mótsins fyrir utan korter, skoraði 6 mörk og lagði upp á annan tug marka. Hann var jafnframt valinn í lið ársins í Bestu Deilda karla 2022. Höskuldur hefur verið lykilmaður og frábær leiðtogi í Breiðabliksliðinu undanfarin ár bæði innan vallar sem utan. Liðið náði frábærum árangri í Evrópukeppni félagsliða. Undir lok tímabils bættist svo enn ein rósin í hnappagat Höskuldar þegar hann bar fyrirliðaband íslenska A landsliðsins í leik gegn Suður-Kóreu. Nokkrum dögum áður hafði hann einnig spilað heilan leik gegn Sádi-Arabíu. Hann er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins, bæði hvað varðar ástundun en ekki síður hvernig hann kemur fram fyrir hönd félagsins.

Sóley Margrét Jónsdóttir

Þrátt fyrir að vera enn í unglingaflokki U23 ára þá sýndi Sóley Margrét að hún er ein besta kraftlyftingakona sem Ísland hefur alið. Sóley vann til silfurverðlauna í samanlögðu í +84 kg flokki kvenna á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum í Tékklandi. Á mótinu vann hún jafnframt til gullverðlauna í hnébeygju, brons í bekkpressu og silfur í réttstöðulyftu. Hún endaði í 11. sæti á stigum þvert á alla þyngdarflokka. Sóley Margrét setti ný Norðurlandamet U23 ára í hnébeygju, 280 kg og í bekkpressu með 185 kg, sem jafnframt er Íslandsmet í opnum flokki og U23 ára flokki. Á Heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum í nóvember vann Sóley silfur í +84 kg flokki kvenna í samanlögðu, gullverðlaun í hnébeygju og bronsverðlaun í bekkpressu. Sóley hefur sýnt og sannað á palli og utan hans að hún er afburðaíþróttakona í heimsklassa.

Viðurkenningar

Flokkur 17 ára og eldri:

Arnar Pétursson frjálsar íþróttir, Freyja Dís Benediktsdóttir bogfimi, Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrna, Ingvar Ómarsson hjólreiðar, Móey María Sigþórsdóttir McClure karate, Sigurður Örn Ragnarsson þríþraut, Sofia Sóley Jónasdóttir tennis, Sóley Margrét Jónsdóttir kraftlyftingar, Thelma Aðalsteinsdóttir áhaldafimleikar, Valgarð Reinhardsson áhaldafimleikar.

Flokkur 13 til 16 ára:

Arey Amilía Sigþórsdóttir McClure karate, Ágúst Guðmundsson handknattleikur, Birgir Gauti Kristjánsson karate, Birgir Hólm Þorsteinsson fimleikar, Bjarney Hermannsdóttir frjálsar íþróttir, Bjarni Ísak Bjarnason taekwondo, Darian Adam Róbertsson borðtennis, Emelíana Ísis Káradóttir dans, Emil Diatlovic blak, Eva Karen Ólafsdóttir dans, Eyrún Hulda Gestsdóttir körfuknattleikur, Freyja Birkisdóttir sund, Grímur Arnarson dans, Guðjón Erik Óskarsson dans, Guðjón Frans Halldórsson golf, Guðmundur Halldór Ingvarsson tennis, Helena Einarsdóttir blak, Herdís Björg Jóhannsdóttir hestaíþróttir, Hilmar Karlsson knattspyrna, Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir knattspyrna, Hrafnhildur Tinna Brynjólfsdóttir fimleikar, Joyceline Banaya tennis, Jökull Otti Þorsteinsson körfuknattleikur, Kasper Kogut sund, Karen Lind Stefánsdóttir golf, Karítas Svana Elfarsdóttir taekwondo, Karl Ágúst Karlsson knattspyrna, Katrín Klara Ásgeirsdóttir dans, Katrín Rósa Egilsdóttir knattspyrna, Magnús Ingi Árnason dans, Ragnar Bjarki Sveinbjörnsson hestaíþróttir, Ragnar Smári Jónasson bogfimi, Rakel Dórothea Ágústsdóttir handknattleikur, Samúel Örn Sigurvinsson frjálsar íþróttir, Þórdís Unnur Bjarkadóttir.

Flokkur ársins 2022 var kjörinn meistaraflokkur Breiðabliks í knattspyrnu karla en liðið varð Íslandsmeistari í knattspyrnu á árinu.

Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir þátttöku í alþjóðlegum meistaramótum, alþjóðlegra meistara og fyrir eftirtektaverðan árangur.