Listsköpun í leikskólanum

Svanhvít Friðriksdóttir. Mynd/ Fréttablaðið Eyþór.
Svanhvít Friðriksdóttir. Mynd/ Fréttablaðið Eyþór.

Í leikskólanum Austurkór er áhersla á listsköpun í víðum skilningi. Unnið er eftir Reggio Emilia stefnunni í skólanum. Svanhvít Friðriksdóttir myndlistarkennari og sérgreinastjóri í skólanum segir listsköpun birtast í flestum verkefnum skólans.

Meðal þess sem hefur verið bryddað upp á er að halda upp á aþjóðlega drullumallsdaginn en honum var fagnað í sumar. Drullumall getur verið mjög listrænt enda er listsköpun stór þáttur í öllu starfinu í leikskólanum.

„Við vinnum mikið út frá áhuga barnanna en Reggio Emilia stefnan sem við fylgjum gengur út frá að taka það sem börnin hafa áhuga á og vinna áfram með það sem þau vilja skoða og rannsaka,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, myndlistarkennari og sérgreinastjóri. „Við vinnum mest með ferlið en ekki einhverja ákveðna útkomu og gildi skólans sem eru samvinna, lýðræði og atorka koma mikið inn í starfið. Á haustin, þegar mörg börn koma ný inn í skólann, vinnum við til dæmis með samvinnuna sem veitir öryggi og er gott veganesti inn í skólaárið.“

Hún segir listsköpun birtast í flestum verkefnum skólans. „Þau læra tónlist í samverustundum og fá að teikna út frá textunum í lögunum sem hjálpar þeim að muna þá betur. Ef þau fara í ævintýraferð sem við gerum vikulega fá þau að teikna upplifun sína og það hjálpar þeim bæði að endurupplifa það sem var að gerast og sækja þær hugmyndir sem kviknuðu. Við fórum til dæmis í strætó um daginn og út úr því komu margar skemmtilegar myndir. Núna er mikill áhugi fyrir plánetum á einni deildinni hjá okkur svo þau eru búin að gera tungl og margar plánetur, geimflaug og sitthvað fleira auk þess að pæla í því hvað annað gæti verið í geimnum. Við leggjum mikla áherslu á að þetta sé þeirra, ekki að verkefnið endi á einhvern fyrirfram ákveðinn hátt “

Sögur, kvikmyndagerð og trúbador

Og listsköpunin tekur á sig ýmsar myndir. „Við erum ekki bara að mála heldur er verið að búa til sögur og stuttmyndir svo dæmi séu tekin,“ segir Svanhvít og bætir við: „Við vinnum út frá hugmyndum barnanna en starfsfólkið hefur alltaf líka möguleika á að koma með hugmyndir frá sér. Það er líka oft svo skemmtileg áskorun að finna aðferð til að laga hugmyndir barnanna að skólanámsskrá eða öfugt, finna námstækifæri í ferlinu. Við erum með breiðan starfsmannahóp, breiða aldursdreifingu og ólíka færni.Hjá okkur starfar t.d. sögukona, kvikmyndagerðarmaður og trúbador sem öll hafa tækifæri til að nýta sína sérþekkingu og áhugasvið í vinnu með hugmyndum barnanna. Við viljum nýta mannauðinn sem best og gefa starfsfólkinu tækifæri til að þróa sig í sínu með börnunum.“

Skráning á hugmyndaferli

Önnur leið sem tengist listsköpuninni er að skrásetja hugmyndir barnsins og virkni þess í að framkvæma þær. „Fyrir jólin fær hvert og eitt barn að gera jólagjöf fyrir foreldra sína. Þá fara þau í smiðjuna ein með kennara og fá þar gæðastund og ákveða sjálf hvað þau ætla að búa til. Þar er fullt af opnum efnivið og þau fá að ákveða. Svo skráir kennarinn ferlið, hvað þau ákveða að gera og af hverju, hvernig þau velja efnið og svo framvegis. Þessi skráning er eiginlega aðalgjöfin, það sem þau eru að hugsa og pæla. Einn ákvað til dæmis að gera gítar handa pabba sínum af því að gítarinn hans var ónýtur og önnur vildi gera hest handa foreldrum sínum. Svo gefa þau sínar ástæður fyrir litavali og efnisvali og allt er þetta skráð og fylgir með gjöfinni,“ Segir Svanhvít.

Sköpunargáfan í drullumallinu

  1. júní er alþjóðlegur drullumallsdagur. Í Austurkór er haldið upp á daginn með pompi og pragt. . „Þá koma öll börnin með aukaföt, við komum með aukamold inn á lóðina og öll fá börnin að drullumalla af hjartans lyst,“ segir Svanhvít.

Drullumallsdagurinn er haldin hátíðlegur víða og er hugmyndin sú að virkja sköpunarkraftinn í tengslum við jörðina, búa til það sem þér sýnist og njóta þess að vera utandyra.

Dagurinn er einn af árlegum viðburðum í skólanum. Nám í leikskóla er samþætt og fer fram í leik, umönnun, samskiptum, skapandi starfi og hugsun þar sem hverju barni er mætt þar sem það er statt í námi og þroska