Nýr íbúðakjarni við Kleifakór tekinn í notkun

Á myndinni eru frá vinstri Jón Kristján Rögnvaldsson skrifstofustjóri, Sigrún Þórarinsdóttir, sviðs…
Á myndinni eru frá vinstri Jón Kristján Rögnvaldsson skrifstofustjóri, Sigrún Þórarinsdóttir, sviðsstjóri, Bryngerður Bryngeirsdóttir forstöðumaður, Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri, Björg Baldursdóttir formaður velferðarráðs og Orri Hlöðversson, formaður bæjarráðs.

Nýjasti íbúðakjarninn í Kópavogi í Kleifakór var vígður í gær. Í kjarnanum eru sjö fullbúnar íbúðir með stuðningi fyrir fatlað fólk. Síðasti kjarni sem tekinn var í notkun í bænum var í Fossvogsbrún sem opnaði árið 2022.

Kleifakór er eitt af níu heimilum velferðarsviðs fyrir fólk með fötlun en þegar allir íbúarnir hafa flust inn verða alls 60 einstaklingar í búsetuþjónustu velferðarsviðs, að utankjarnaþjónustu meðtalinni.

Forstöðumaður íbúðakjarnans er Bryngerður Bryngeirsdóttir og afhenti Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri henni lykla við vígsluna.

Kópavogsbær hefur undanfarin ár tekið mikilvæg skref í búsetumálum fatlaðs fólks með lokun herbergjasambýla og fjölgun annarra búsetukosta.

Skóflustungan að Kleifakór var tekin í febrúar í fyrra og hafa framkvæmdir gengið vel. Sérverk sá um að byggja íbúðakjarnann sem stendur við Kleifakór 2.