Tæknin nýtt í velferðarþjónustu

Sigrún Þórarinsdóttir og Ingunn Ingimarsdóttir.
Sigrún Þórarinsdóttir og Ingunn Ingimarsdóttir.

Mánudaginn 23. maí síðastliðinn undirrituðu Sigrún Þórarinsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Ingunn Ingimarsdóttir framkvæmdarstjóri Memaxi efh. áskriftarsamning um notkun Memaxi á heimilum fatlaðs fólks í Kópavogi.

Memaxi er tæknilausn sem einfaldar og leysir margvísleg samskipta-, skráningar- og skipulagsmál í velferðarþjónustu, skjólstæðingum, aðstandendum og starfsfólki til heilla. Lausnin er notuð víða um land í þjónustu við aldraða og fatlaða. Velferðarsvið Kópavogs hóf innleiðingu á þessari tækni á heimili fatlaðs fólks í byrjun árs 2021 og nú hafa þrjú heimili innleitt eða eru að innleiða þessa tækni, fyrir samtals 23 íbúa.

"Innleiðing memaxi er í samræmi við stefnu sviðsins um markvissa nýtingu tæknilausna meðal annars við veitingu einstaklingsbundinnar þjónustu og til að auka öryggi persónuupplýsinga. Velferðarsvið fagnar þessum áfanga við innleiðingu á velferðartækni á heimilum fatlaðs fólks í Kópavogi og fagnar áframhaldandi samstarfi við Memaxi," segir Sigrún Þórarinsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs Kópavogsbæjar.

"Nálgun velferðarsviðs Kópavogsbæjar á innleiðingu Memaxi hefur verið til fyrirmyndar og eftirbreytni. Öflugt og áhugasamt starfsfólk velferðarsviðs hefur fengið tíma og næði til að læra á kerfið og einbeita sér að breyttum verkferlum og yfirfærslu skráninga á pappír yfir í stafrænt form. Upplýsingatæknideild og persónuverndarfulltrúi hafa tekið þátt frá upphafi og þannig stutt dyggilega við innleiðinguna. Kópavogsbær hefur tekið velferðartækni föstum tökum með skýra sýn á framþróun og umbætur. Kópavogsbær er öflugur samstarfsaðili Memaxi og beinir sjónum að þeim mikilvæga virðisauka sem hlýst af notkun Memaxi, auknum gæðum í þjónustunni, öryggi upplýsinga, fjárhagslegum ávinningi og persónumiðaðri þjónustu við íbúa. Hlökkum við hjá Memaxi til áframhaldandi samstarfs og þróunar ásamt því að tengja Memaxi við önnur hugbúnaðarkerfi í rekstri bæjarins," segir Ingunn Ingimarsdóttir framkvæmdastjóri Memaxi.