Kvaddir eftir áratugastarf

Auður Dagný Kristinsdóttir, skipulagsstjóri, Stefán L. Stefánsson, Ásthildur Helgadóttir sviðsstjór…
Auður Dagný Kristinsdóttir, skipulagsstjóri, Stefán L. Stefánsson, Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs, Smári Smárason og Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri.

Stefán L. Stefánsson, tæknifræðingur, og Smári Smárason, arkitekt, voru kvaddir við starfslok hjá Kópavogsbæ en þeir hafa unnið hjá bænum um áratugaskeið.

Stefán hóf störf hjá Kópavogsbæ árið 1980 þegar íbúar voru rúmlega 13.000. Stefán var lengst af deildarstjóri framkvæmdadeildar og hafði því yfirumsjón með framkvæmdum á vegum Kópavogsbæjar, sem voru fjölmargar enda bærinn í miklum vexti.

Lagning vega og lagnakerfis heyrði undir Stefán og var í nógu að snúast á starfævinni, en á hans starfstíma risu Smárahverfi og hverfin austan Reykjanesbrautar auk þess sem gatnakerfi eldri hluta þurfti endurbóta við. Þar að auki eru allar þær byggingar sem risið hafa á vegum bæjarins á tímabilinu, skólar, leikskólar, menningar- og íþróttahús.

Smári Smárason, arkitekt, hóf störf hjá Kópavogsbæ árið 2001 og tók þannig til starfa þegar mjög mikið uppbyggingar- og þensluskeið var hjá bænum. Hann fékk það verkefni að skipuleggja efstu byggðir í Kópavogi en Kórahverfi og Vatnsendi voru skipulögð á hans starfstíma en þau risu um og upp úr aldamótum.

Þá hefur Smári unnið að skipulagi ýmissa þéttingarreita í Kópavogi svo sem Glaðheimasvæði.

Stefán og Smári voru leystir út með gjöfum þegar þeir voru kvaddir af samstarfsfólki.

Kópavogsbær þakkar Stefáni og Smára fyrir góð störf í þágu bæjarins og óskar þeim velfarnaðar.