Tónlistarskóli Kópavogs fagnar 60 ára afmæli

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs ásamt Árna Harðarsyni skólastjóra og Kristínu Stefánsdót…
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs ásamt Árna Harðarsyni skólastjóra og Kristínu Stefánsdóttur aðstoðarskólastjóra. Mynd / Jón Svavarsson.

Tónlistarskóli Kópavogs fagnar 60 ára afmæli um þessar mundir. Skólinn stóð fyrir hátíðarsamkomu í Salnum miðvikudaginn 1. nóvember, en þann dag voru 60 ár liðin frá því skólinn tók til starfa.

Dagskráin samanstóð af tónlistarflutningi kennara og nemenda, núverandi og fyrrverandi, og svipmyndir voru sýndar úr 60 ára starfi. Guðríður Helgadóttir, formaður stjórnar Tónlistarskólans stýrði samkomunni og ávörp fluttu Árni Harðarson, skólastjóri, og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri, sem færði skólanum afmælisgjöf fyrir hönd bæjarstjórnar.

Saga Tónlistarskólans er samofin sögu Kópavogsbæjar en tekið var að ræða stofnun hans fáum árum eftir að Kópavogsbær fékk kaupstaðarréttindi 1955. Það var að frumkvæði þáverandi bæjarstjóra, Hjálmars Ólafssonar, sem var bæjarstjóri 1962-1970, að málið var tekið formlega upp og varð úr að bæjarráð og bæjarstjórn lögðu til stofnfé til stofnunar skólans.

Skólinn tók svo til starfa fyrir sléttum 60 árum, þann 1.nóvember 1963 og hefur starfað sleitulaust síðan, vaxið og eflst og verið í fararbroddi tónlistarskóla á landinu.

Tónlistarskóli Kópavogs er sjálfseignarstofnun og sitja tveir fulltrúar Kópavogsbæjar í stjórn hans. Skólinn er til húsa í Hamraborg 8, og er þannig hluti af menningarkjarna Kópavogsbæjar þar sem er að finna Gerðarsafn, Bókasafn Kópavogs, Náttúrufræði stofa Kópavogs og Salinn.

Til hamingju með afmælið Tónlistarskóli Kópavogs