Handhafar umhverfisviðurkenninga ásamt bæjarstjóra og skipulags- og umhverfisráði.
Umhverfisviðurkenningar skipulags- og umhverfisráðs voru veittar þriðjudaginn 16. september. Að þessu sinni voru sex viðurkenningar veittar í flokkunum umhirða húss og lóðar, endurgerð húsnæðis og endurgerð atvinnuhúsnæðis.
Arkís Arkitektar hlutu viðurkenningu fyrir endurgerð atvinnuhúsnæðis sem upphaflega var reist fyrir trésmiðjuna Ask og teiknað af Herði Harðarsyni. Þá hljóta viðurkenningu fyrir endurgerð húsnæðis eigendur Hrauntungu 77, Jóhann Gunnar Stefánsson og Sigrún Dóra Jónsdóttir, og eigendur Fífuhvamms 7, Ingimar Guðjón Bjarnason og Sólveig Fríða Jóhannsdóttir. Bæði þessi hús eru teiknuð af Sigvalda Thordarsyni, Fífuhvammur 1958 en Hrauntunga 1967.
Eigendur þriggja húsa fengu viðurkenningu fyrir umhirðu húss og lóðar og eiga þau sameiginlegt að hafa hlúð að umhverfi húsa sinna og görðum af stakri prýði. Þetta eru Hrund Kristjánsdóttir og Ágúst Jensson, Asparhvarfi 2, Hanna Sveinrún Ásvaldsdóttir og Gunnlaugur Jens Helgason, Kársnesbraut 41 og María Sigurðardóttir Norðdahl og Helgi Benediktsson, Skjólbraut 14.
„Það er til fyrirmyndar hversu margir hugsa vel um umhverfi sitt, hús og garða. Þetta hefur áhrif og eykur lífsgæði íbúa,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri
Umhverfisviðurkenningar Kópavogsbæjar hafa verið veittar frá árinu 1964, en í ár eru þær veittar af skipulags- og umhverfisráði í fyrsta sinn.
Það voru Hjördís Ýr Johnson, formaður skipulags- og umhverfisráðs og Leó Snær Pétursson sem afhentu viðurkenningarnar að viðstöddum gestum. Að athöfn lokinni var farin skoðunarferð til þeirra sem hlutu viðurkenningu í ár.
Umhirða húss og lóðar til fyrirmyndar
Asparhvarf 2: Hrund Kristjánsdóttir og Ágúst Jensson.
Hrund og Ágústu byggðu sjálf húsið og eru einu eigendur þess. Lóðin er stór og hefur verið mótuð af eigendunum sjálfum og þau sinnt garðyrkjustörfum. Upphaflega fengu þau ráðgjöf frá landslagsarkitektinum Birni Jóhannssyni, sem rissaði upp tillögur að gróðri, þar á meðal hugmyndina um að gróðursetja utan girðingar. Þó ekki hafi öllu verið fylgt nákvæmlega, var teikningin notuð sem leiðarljós. Í garðinum má finna fjölbreyttan gróður.
Kársnesbraut 41: Hanna Sveinrún Ásvaldsdóttir og Gunnlaugur Jens Helgason
Hanna og Gunnlaugur eru þriðju eigendur hússins og hafa gert ýmsar breytingar á garðinum sem er stór og fjölbreyttur. Þau hafa gróðursett fjölbreytt tré og plöntur, hellulagt og malbikað innkeyrsluna. Skjólveggur og pallur sunnanmegin við húsið bætir aðstöðu til útiveru og limgerði hefur verið plantað norðanmegin, silfurreynir frá Gróanda í Mosfellsdal prýðir lóðina. Gróðurinn er fenginn víða að, jafnvel fræ frá útlöndum. Í garðinum er gróðurhús frá 2006 með vínberjaplöntum og ávaxtatrjám. Skipulag garðsins byggir á að búa til skjól án þess að skyggja á útsýni – hvorki fyrir eigendur né nágranna.
Skjólbraut 14: María Sigurðardóttir Norðdahl og Helgi Benediktsson
Árið 2006 voru gerðar umfangsmiklar endurbætur á lóðinni, þar á meðal nýr efri pallur sunnanmegin við húsið, hleðsla og settröppur, auk stækkunar á innkeyrslu. Bakgarðurinn á norðurhlið var einnig tekinn í gegn, þar voru gróðursett tré, komið upp matjurtagarði og safnkössum. Garðurinn er hannaður með það að markmiði að vera bæði notalegur fyrir íbúa og fallegur frá götu. Í honum má finna fjölbreyttan gróður og helsta kennileitið er stór steinn í miðjunni, ásamt klipptum greinitrjám í bonsai-stíl.
Endurgerð húsnæðis
Hrauntunga 77: Jóhann Gunnar Stefánsson og Sigrún Dóra Jónsdóttir
Hrauntunga 77 hlýtur viðurkenningu fyrir vandaða og metnaðarfulla endurgerð á eldra húsnæði. Húsið var byggt árið 1967 og hannað af Sigvalda Thordarson, en núverandi eigendur, Jóhann Gunnar Stefánsson og Sigrún Dóra Jónsdóttir, keyptu það árið 2016. Við kaupin var húsið í afar slæmu ásigkomulagi – gluggar og hurðir ónýtar, fúkkalykt og leki víða. Að lokinni innri endurnýjun var hafist handa við endurgerð á ytra byrði.
Fífuhvammur 7: Ingimar Guðjón Bjarnason og Sólveig Fríða Jóhannsdóttir
Fífuhvammur 7 hlýtur viðurkenningu fyrir vandaða og smekklega endurgerð húsnæðis. Húsið var byggt árið 1958 og hannað af Sigvalda Thordarson. Upprunalegir eigendur, Svala Magnúsdóttir og Jóhann Ágústsson, byggðu húsið á árunum 1950–1960 og bjuggu þar í um 50 ár. Árið 2008 tóku Ingimar Guðjón Bjarnason og Sólveig Fríða Jóhannsdóttir við eigninni af foreldrum Sólveigar. Húsið var í góðu ástandi en margt orðið gamalt, og þau hófu smám saman endurbætur sem náðu til bæði ytra og innra byrðis. Garðurinn hefur einnig tekið breytingum og prýða nú holtagrjót og gamalt reynitré suðvesturenda lóðarinnar.
Endurgerð atvinnuhúsnæðis
Vesturvör 7: Arkís Arkitektar
Arkís arkitektar hljóta viðurkenningu fyrir vandaða endurgerð og umbreytingu úr gömlu iðnaðarhúsnæði í nútímalegt og vistvænt skrifstofuhúsnæði. Húsið var upphaflega byggt árið 1981 fyrir Trésmiðjuna Ask og hannað af Herði Harðarssyni.
Þegar Arkís arkitektar tóku við húsinu vorið 2021 hafði það staðið autt í nokkurn tíma og var í mikilli niðurníðslu. Húsið var stækkað um 100 m² og nú eru þar 42 starfsstöðvar auk fundarherbergja og stoðrýma. Iðnaðarhurðir voru fjarlægðar og sett gluggaband á framhlið. Fremri hluti hússins var klæddur með lóðréttri timburklæðningu og nýir gluggar settir í nær allt húsið.
Árið 2023 var farið í endurbætur á lóð og útisvæði – malbikað plan breytt í grænt svæði með gróðurbeðum, setsvæðum og timburpöllum. Skjólveggir skilja á milli einkarýma og almenningsrýma og kaffistofa tengist nú skjólgóðum inngarði.