- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Námskeið fyrir börn og fjölskyldur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
Nýútskrifaðir leikskólakennarar og starfsfólk sem bætt hefur við sig meistaragráðu í leikskólakennarafræðum samhliða störfum hjá Kópavogsbæ komu saman til að fagna áfanganum á dögunum.
Kópavogsbær greiðir námsstyrki fyrir starfsfólk sem fer í háskólanám í leikskólakennarafræðum og eiga þær nýútskrifuðu það sameiginlegt að hafa nýtt sér þann stuðning en bærinn greiðir skólagjöld og námsgagnastyrk og veitir svigrúm til að stunda nám meðfram vinnu.
Góður árangur hefur verið af þessari stefnu og er svo komið að 36% starfsfólks leikskóla bæjarins er leikskólakennaramenntað, sem er hæsta hlutfallið á höfuðborgarsvæðinu. Þar fyrir utan eru 16% háskólamenntaðir í ýmsum greinum. Þá eru 50 af þeim 250 sem stunda nám í leikskólakennarafræðum við Háskóla Íslands starfsfólk Kópavogsbæjar.
Frá árinu 2014 hafa á annað hundrað lokið námi með námsstyrkjum frá Kópavogsbæ og hafið störf á leikskólum Kópavogsbæjar. Loks má þess geta að Kópavogsbær styrkir ófaglærða leiðbeinendur til þess að sækja sér menntun leikskólaliða, sem er starfstengt nám á framhaldsskólastigi.
„Við erum afar stolt af þeim stuðningi sem bærinn býður og hversu vel stjórnendur leikskólanna hafa stutt við það starfsfólk sem vill nýta sér stuðninginn. Fjölgun leikskólakennara eykur gæði faglega starfsins í leikskólum bæjarins en okkar metnaður liggur í því að leikskólarnir okkar séu eins og best gerist,“ segir Sigurlaug Bjarnadóttir, deildarstjóri leikskóladeildar.
Nánar um námsstyrki
Eftir þriggja mánaða starf í leikskóla er unnt að óska eftir stuðningi leikskólastjóra til að sækja um nám í leikskólakennarafræðum. Sótt er um grunnnám í leikskólakennarafræði eða meistaragráðu ofan á aðra háskólagráðu. Styrkurinn felst í því að starfsfólk getur verið fjarri vinnu vegna skólasóknar eða vettvangsnáms í allt að 35 daga á skólaárinu. Einnig er styrkt nám leiðskólaliða, með greiðslu skólagjalda og námsgagna auk veglegrar eingreiðslu til hvatningar við lok náms ásamt því að veita svigrúm á vinnutíma vegna vettvangsnáms.