Vegna auglýsingaskilta

Kópavogsbær.
Kópavogsbær.

Ábyrgðamenn allra framboða í til sveitarstjórnar í Kópavogi hafa fengið leiðbeiningar og skýringabréf um uppsetningu auglýsingaskilta sent frá bænum. 

Bent er á að sækja þarf um leyfi fyrir skiltum sem eru stærri en 2,0 fermetrar og er það gert með því að senda skriflega umsókn með tilheyrandi gögnum á byggingarfulltrúa Kópavogs

Ekki þarf að sækja um leyfi fyrir minna skilti, ef það stendur skemur en tvær vikur. 

Texti bréfsins er eftirfarandi:

Vegna fjölda ábendinga um auglýsingaskilti sem framboð til sveitarstjórnar í Kópavogi hafa sett upp innan bæjarmarka er rétt að árétta hvaða reglur gilda um auglýsingaskilti á almannafæri annars vegar og á mannvirkjum í einkaeigu hins vegar.

Samkvæmt 9. gr. lögreglusamþykktar Kópavogs er óheimilt er með öllu að reisa auglýsingaskilti á almannafæri nema með leyfi bæjarstjórnar. Sama gildir um ökutæki með auglýsingum sem standa yfirgefnar í þeim tilgangi að auglýsa við almannafæri. Lögreglusamþykkt fyrir Kópavogsbæ hefur að geyma skilgreiningu í 2. gr. um hvað sé átt við með hugtakinu ,,almannafæri“. Almannafæri á við götur, vegi, gangstéttir, gangstíga, svæði ætluð til almenningsnota og staði sem opnir eru almenningi, svo sem íþróttasvæði, kvikmyndahús, leikhús, samkomuhús, söfn, veitingastaði, verslanir, leiktækjastaði. bifreiðastöðvar, biðskýli og söluturna innan Kópavogs.

Um mannvirki í bænum gilda ákvæði byggingarreglugerðar. Samkvæmt ákvæði 2.5.1. gr. byggingareglugerðar nr. 112/2012 skal sækja um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem eru yfir 1,5 m² að flatarmáli.

Undanþegin eru þó skilti allt að 2,0 m² að stærð sem ætlað er að standa skemur en tvær vikur sem og skilti sem sett eru upp samkvæmt ákvæðum umferðarlaga.

Auglýsingaskilti sem framboðin vilja setja upp á mannvirkjum eða við slík og hafa uppi fram yfir kosningar 14. maí nk. eru því ekki leyfisskyld ef þau eru undir tilskildum stærðarmörkum og sett upp með leyfi eiganda mannvirkisins sitt sbr. 9. gr. lögreglusamþykktar. Sé skiltið stærra en 2,0 m² er uppsetning þess háð leyfi byggingafulltrúa. Umsækjandi skal senda skriflega umsókn ásamt tilheyrandi gögnum til byggingarfulltrúa Kópavogs (byggingarfulltrui@kopavogur.is). Tilheyr­andi gögn eru m.a. uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að sýna útlit, fyrirkomulag og öryggi skiltanna.

Þau framboð sem sett hafa upp auglýsingar sem ekki eru í samræmi við framangreindar reglur eru beðin um að fjarlægja þau og afla tilskilinna leyfa fyrir uppsetningu þeirra.

Skoða bréfið - smella hér.