Vel heppnaðar hverfishátíðir í Kópavogi

17. júní 2021
17. júní 2021

Góð stemning var á 17. júní þetta árið. Kópavogsbúar létu ekki örlitla úrkomu á sig fá og var vel mætt á alla staði. Fyrirkomulagið í fyrra vakti mikla lukku og því var ákveðið að endurtaka leikinn og fagna hátíðinni á fimm stöðum.

Nóg var um að vera og góð stemning en plássið nægt fyrir gesti og gangandi. Hverfishátíðirnar fóru fram við Fífuna, Salalaug, Fagralund og Kórinn og var boðið upp á fjölbreytta dagskrá, leiktæki og hoppukastala. Við Menningarhúsin var meðal annars sirkussýning, leiktæki, listgjörningar og ærslabelgurinn sívinsæli.

Vegna fjöldatakmarkana voru foreldrar og forráðamenn beðnir um að setja börnin í forgang og leyfa þeim að njóta hátíðarhaldanna. Börnin skemmtu sér prýðilega og sungu með skemmtikröftum hátíðarinnar.

Fram komu meðal annars Bríet, Selma og Regína Ósk, Lína Langsokkur, Saga Garðars, Gugusar, ræningjarnir úr Kardimommubæ, leikhópurinn Lotta, Dansskóli Birnu Björns, Skólahljómsveit Kópavogs, Karíus og Baktus, Þorri og Þura, Eva Ruza og Hjálmar Örn.

Bríet kemur fram á 17. júní