Velkomin í Kópavog!

Velkomin í Kópavog.
Velkomin í Kópavog.

Góð þátttaka hefur verið í sumarnámskeiðinu Velkomin sem ætlað er börnum og ungmennum sem er nýir íbúar í Kópavogi og hafa annað móðurmál en íslensku.

Námskeiðið sem hefur aðstöðu í félagsmiðstöðinni Kjarnanum í Kópavogsskóla hefur verið haldið í Kópavogi frá árinu 2018 en er í sífelldri þróun hjá tveimur deildum menntasviðs, grunnskóla- og frístundadeild.

Námskeiðið miðar að því að bjóða börn og ungmenni sem hafa annað móðurmál en íslensku og eru ný í samfélaginu velkomin í skólann, félagsmiðstöðina, ungmennahúsið, Vinnuskólann, íþróttafélögin og samfélagið sjálft. Að allir upplifi sig velkomna í samfélagið, samfélag sem allir eiga heima í. Markmið námskeiðsins er að virkja börn og ungmenni á aldrinum 10-20 ára til þátttöku í samfélaginu. Boðið er meðal annars upp á vettvangsheimsóknir, óhefðbundna íslensku kennslu og fjölmenningarfræðslu á námskeiðinu.

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs kynnti sér starfsemi Velkomin og hitti forstöðumann Kjarnans, Halldór Hlöðversson og þátttakendur í námskeiðinu. Með henni í för voru Amanda Karima Ólafsdóttir, deildarstjóri frístundadeildar, og Anna Birna Snæbjörnsdóttir, sviðsstjóri menntasviðs Kópavogsbæjar.