Vignir Vatnar og Thelma íþóttafólk ársins 2023

Sverrir Kári Karlsson, Thelma Aðalsteinsdóttir, Vignir Vatnar Stefánsson og Ásdís Kristjánsdóttir.
Sverrir Kári Karlsson, Thelma Aðalsteinsdóttir, Vignir Vatnar Stefánsson og Ásdís Kristjánsdóttir.

Vignir Vatnar Stefánsson skákmaður úr Breiðabliki og Thelma Aðalsteinsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2023.

Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum fimmtudaginn 11. janúar. Fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs afhenti þeim hvoru um sig 300 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.

Vignir Vatnar og Thelma voru valin úr hópi 42 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.

Auk þeirra Vignis Vatnars og Thelmu hlutu átta einstaklingar viðurkenningu fyrir frammistöðu á árinu í flokknum 17 ára og eldri.

Þá hlutu 32 unglingar viðurkenningu fyrir góðan árangur á árinu 2023.

Í fyrsta sinn var gefinn kostur á að tilefna kvár og stálp til viðurkenninga og fékk stálp í flokki 13 til 16 ára viðurkenningu á hátíðinni.

Fjöldi annarra viðurkenninga var veittur á hátíðinni. Meðal annars var sjálfboðaliði ársins valinn í fyrsta sinn og hlaut Gunnþór Hermannsson þá viðurkenningu fyrir starf sitt í þágu HK.

Nánar: 

Vignir Vatnar Stefánsson

Vignir Vatnar hefur unnið ótal afrek á árinu. Hann varð Norðurlandameistari U20 ára í febrúar. Kláraði stórmeistaratitilinn í mars og varð þannig sextándi stórmeistari Íslendinga. Stærsta afrekið var svo í maí þegar Vignir Vatnar varð Íslandsmeistari í skák, bestur á Íslandi. Í lok september varð hann í 13. sæti á HM U20 ára í Mexíkó og tefldi á 3ja borði með landsliði íslands á EM landsliða í Svartfjallalandi í nóvember. Vignir Vatnar er áberandi í íslensku skáklífi og er mikilvæg fyrirmynd fyrir ungmenni og börn sem æfa skák af kappi. Á árinu stofnaði hann sinn eigin skákkennslu vef ásamt því að sinna afreksþjálfun í skák hjá Skákdeild Breiðabliks.

Thelma Aðalsteinsdóttir

Thelma átti sitt besta keppnisár frá upphafi 2023. Hún varð Íslandsmeistari í fjölþraut kvenna og bikarmeistari með liði sínu Gerplu. Thelma varð Norðurevrópumeistari á tvíslá auk þess að vinna sér inn keppnisrétt á Heimsmeistaramótinu. Á HM gerði hún sér lítið fyrir og náði sínum hæðstu stigum í fjölþraut á alþjóðlegu móti og var eingöngu 0,8 stigum frá því að vinna sér inn sæti á Ólympíuleikunum. Thelma stefnir ótrauð á að vinna sér inn sæti á leikunum í París 2024. Á heimsbikarmóti í Szombathely í Ungverjalandi gerði Thelma sér lítið fyrir og komst í úrslit á stökki og var fyrsti varamaður inn í úrslit á jafnvægisslá. Í úrslitunum á stökki hafnaði Thelma í 7. sæti. Í lok árs var Thelma valin fimleikakona ársins hjá Fimleikasambandi Íslands.

Viðurkenningar

Flokkur 17 ára og eldri:

Birna Kristín Kristjánsdóttir frjálsar íþróttir, Freyja Dís Benediktsdóttir bogfimi, Herdís Björg Jóhannsdóttir, hestaíþróttir, Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrna, Ingvar Ómarsson hjólreiðar, Sigurður Örn Ragnarsson þríþraut, Sóley Margrét Jónsdóttir kraftlyftingar, Thelma Aðalsteinsdóttir áhaldafimleikar, Valgarð Reinhardsson áhaldafimleikar og Vignir Vatnar Stefánsson, skák.

Flokkur 13 til 16 ára:

Arey Amilía Sigþórsdóttir McClure karate, Baldur Freyr Árnason, bogfimi, Birgir Hólm Þorsteinsson fimleikar, Eden Ólafsson dans, Elísabet Sunna Scheving golf, Embla Hrönn Halldórsdóttir körfuknattleikur, Eva Karen Ólafsdóttir dans, Freyja Örk Sigurðardóttir dans, Gunnar Þór Heimisson golf, Halla Marín Sigurjónsdóttir blak, Heiðdís Ninna Daðadóttir dans, Herdís Halla Guðbjartsdóttir knattspyrna, Inga Fanney Hauksdóttir handknattleikur, Ísabel Rós Ragnarsdóttir knattspyrna, Jón Sölvi Símonarson knattspyrna, Karl Ágúst Karlsson knattspyrna, Kató Guðbjörns bogfimi, Kári Pálmason fimleikar, Lilja Katrín Gunnarsdóttir fimleikar, Magnús Ingi Árnason dans, Margrét Júlía Jóhannsdóttir fimleikar, Markús Freyr Arnarsson blak, Nadja Djurovic sund, Orri Guðmundsson körfuknattleikur, Ómar Páll Jónasson tennis, Patrekur Guðni Þorbergsson handknattleikur, Patrekur Ómar Haraldsson frjálsar íþróttir, Ragnar Bjarki Sveinbjörnsson hestaíþróttir, Snæfríður Eloise Rist Aubergy frjálsar íþróttir, Unnar Búi Baldursson karate, Viktoría Harðardóttir skíði, Þórdís Unnur Bjarkadóttir bogfimi.

Flokkur ársins 2023 var kjörinn meistaraflokkur Breiðabliks í knattspyrnu karla en liðið náði besta árangri sem íslenskt karlalið í knattspyrnu hefur náð í Evrópukeppni félagsliða.

Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir þátttöku í alþjóðlegum meistaramótum, alþjóðlegra meistara, heiðursviðurkenningar og fyrir eftirtektaverðan árangur.