Vináttudagur í Kópavogi

Vináttudagur í Kópavogi 8. nóvember.
Vináttudagur í Kópavogi 8. nóvember.

Skólar og leikskólar í Kópavogi tóku þátt í dagskrá og samveru í sínu skólahverfi á baráttudegi gegn einelti, 8. nóvember.

Hefð er fyrir því hjá skólum í Kópavogi að minna á mikilvægi vináttu og nauðsyn þess að berjast gegn einelti þennan dag. Meðal þess sem bryddað er upp á í tilefni dagsins er ganga um skólahverfi þar sem leik- og grunnskólar sameinast. Leikskólabörn heimsækja skóla, sungið er saman og dansað, ýmis inni eða úti. Þá er unnið að verkefnum sem tengjast vináttu, jákvæðum samskiptum og baráttu gegn einelti.

Bæjarstjóri Kópavogs, Ásdís Kristjánsdóttir, sótti Kórahverfið heim að þessu sinni og gekk með börnum frá Hörðuvallaskóla að Kórnum. Í Kórnum mynduðu börnin hringi inni í íþróttahúsinu og dönsuðu saman. Blær, vináttubangsi Barnaheilla, var á ferðinni og tók þátt í dagskránni við mikla gleði viðstaddra.

„Þetta framtak er til fyrirmyndar og eflir börnin. Það myndast skemmtileg og jákvæð stemning í skólunum sem smitast út í hverfin,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.