17. júní hátíðarhöld

Kópavogsbúar fylltu Rútstún
Kópavogsbúar fylltu Rútstún

Haldið verður upp á 17. júní í Kópavogi með metnaðarfullri dagskrá sem stendur allan daginn og fram á kvöld. Dagskrá þjóðhátíðardagsins hefst með skrúðgöngu sem hefst við Mennaskólann í Kópavogi klukkan 13.30 og lýkur á Rútstúni þar sem við tekur hátíðar- og skemmtidagskrá sem stendur fram eftir degi. Stórtónleikar hefjast á Rútstúni kl. 19.30.

Dagskrá 17. júní 2016 
Hið árlega 17. júní hlaup  

fyrir börn í 1. -6. bekk verður við Kópavogsvöll og hefst það kl. 10:00. Sannkölluð fjölskyldustemning þar sem allir fá verðlaunapening. Skátafélagið Kópar leiðir skrúðgönguna sem leggur af stað frá Menntaskólanum í Kópavogi klukkan 13.30 og lýkur henni á Rútstúni, en þar tekur við hátíðar- og skemmtidagskrá.

Theodóra Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs flytur ávarp, fjallkonan fer með ljóð og nýstúdent flytur hugleiðingar ungs fólks á þjóðhátíðardegi. Skólahljómsveit Kópavogs leikur ættjarðarlög undir fánaborg frá Skátafélaginu Kópum.

Hljómsveitin Pollapönk stígur á stokk áður en Íþróttaálfurinn og Solla stirða mæta á svæðið. Alda Dís tekur lagið og Örn „Afi“ Árnason skemmtir börnunum. Áður en þær Selma Björnsdóttir og Regína Ósk taka velvalin ABBA lög mun Sylvía Erla Melsted koma fram. Það verður svo veðurguðinn Ingó sem  klárar dagskemmtunina.

Auk dagskrár á stóra sviðinu er ýmislegt annað til skemmtunar. Á Rútstúni verða hoppukastalar, tívolítæki og stórt tjald með leiktækjum fyrir börn á aldrinum 0-5 ára. Götuleikhús Kópavogs skemmtir í skrúðgöngunni, Hjálparsveit Skáta í Kópavogi verður með búnaðarsýningu við enda Vallargerðisvallar, boðið verður upp á andlitsmálun og íþróttafélögin sjá um veitingasölu á svæðinu. 

Líkt og undanfarin ár verður dagskrá á túninu við Gerðarsafn. Þar munu Skapandi sumarstörf vera með ýmsar uppákomur, teymt verður undir börnum á hestum, andlitsmálun, hoppukastalar og leiksvæði fyrir börnin.

Kaffihlaðborð á vegum íþróttafélagsins Glóðar hefst kl. 14.00 í félagsmiðstöðinni Gjábakka. Þar verða tónlistaratriði frá Skapandi sumarstörfum en einnig munu Selma Björnsdóttir og Regína Ósk syngja ABBA lög. 
 Um kvöldið verða stórtónleikar á Rútstúni. Þeir hefjast kl. 19.30 og standa til kl. 22:00.  Fram koma Agnes, Glowie, Úlfur Úlfur, Skálmöld og Sálin.