17. júní verður fagnað með fimm hverfishátíðum

Lína Langsokkur að skremmta á 17.júní
Lína Langsokkur að skremmta á 17.júní

Þjóðhátíðardegi verður fagnað í Kópavogi með fimm hverfishátíðum,  í og við menningarhúsin í Kópavogi, við Fífuna, í Fagralundi, við Salalaug og Kórinn.

Fyrirkomulagið var tekið upp á síðasta ári og sló rækilega í gegn og var því ákveðið að endurtaka leikinn. 

Á meðal þeirra sem fram koma á hverfishátíðum við íþróttahúsin fjögur eru: Bríet, Selma og Regína Ósk, Lína Langsokkur, Saga Garðarsdóttir, Ræningjarnir úr Kardimommubæ, Leikhópurinn Lotta, Dansskóli Birnu Björns, Karíus og Baktus, Þorri og Þura, Gugusar, Sikurs, Eva Ruza og Hjálmar.

Listamennirnir koma allir fram á tveimur mismunandi stöðum; dagskráin er því ólík á milli svæða en alls staðar flott og skemmtileg. Boðið verður upp á hoppukastala og tívólítæki og er allt ókeypis. Grímuskylda er á hátíðarsvæðinu og verða allar hendur sprittaðar sem í leiktækin kona.

Við  menningarhúsin verður dagskráin með öðru sniði, þar verður boðið upp á tónlistaratriði, draumafangarasmiðju, sirkussýningu og ævintýraþraut fyrir fjölskylduna svo eitthvað sé nefnt. 

Tekið verður mið af gildandi fjöldatakmörkunum og biðjum við foreldra og forráðamenn um að setja börnin í forgang og leyfa þeim að njóta hátíðarhaldanna. Sérstök sóttvarnarhólf verða sett upp á svæðinu þar sem 300 manns geta verið í hverju hólfi fyrir sig.

Allir eru hvattir til að viðhalda eins metra fjarlægð þar sem því verður viðkomið. 

Við hvetjum bæjarbúa til að halda daginn hátíðlegan í sínu hverfi; skreyta og flagga og ganga síðan 
eða hjóla á hátíðarsvæðið næst heimili sínu.  
 
Fylgist með á Facebook- og vefsíðu Kópavogsbæjar.  

 

 
Minnum á grímuskyldu ef ekki er hægt að uppfylla 1 metra nálægðartakmörkun á milli ótengdra aðila.

„Það er ríkur vilji hjá bænum að gefa bæjarbúum tækifæri til þess að gleðjast á þjóðhátíðardaginn og halda 17. júní hátíðlegan. 
Hátíðarhöldin í fyrra tókust með eindæmum vel en þá breyttum við til vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu.
Við endurtökum því leikinn og bjóðum upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá þar sem áherslan er á að gleðja börn og ungmenni “
segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

„Við munum dreifa hátíðarhöldunum um bæinn á svæði sem geta tekið á móti bæjarbúum innan þeirra fjöldatakmarkana sem í boði er. 
Við höfum lagt kapp á að halda í gleðina og vonum að íbúar taki hverfishátíðunum vel líkt og í fyrra. Við leggjum áherslu á að fólk komi gangandi eða hjólandi á hátíðarsvæðin,  njóti í sínu hverfi og leyfi börnunum fyrst og fremst að ganga fyrir. Svo er bara um að gera að draga fánann að húni og gleðjast í garðinum heima” segir Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála í Kópavogi. 

,,Hverfishátíðirnar tókust með eindæmum vel í fyrra svo Lista og menningarráð bæjarins tók þá ákvörðun um að vinna áfram með þær. 
Við vinnum hverfishátíðirnar í góðu samstarfi við Almannavarnir og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og förum í einu og öllu eftir tilmælum þeirra.
Við hvetjum bæjarbúa að fylgjast með vefsíðu og samfélagsmiðlum bæjarins, njóta þjóðhátíðardagsins saman og hafa gaman af“ bætir Soffía við. 

Stelpa á 17.júní Skólahjómsveit 17.júní 

Sápukúlur á 17.júní