Skólahljómsveit Kópavogs fagnar 50 ára afmæli

Skólahljómsveit Kópavogs lék á sínum fyrstu tónleikum fyrir utan Kársnesskóla þann 22. febrúar 1967…
Skólahljómsveit Kópavogs lék á sínum fyrstu tónleikum fyrir utan Kársnesskóla þann 22. febrúar 1967. Sama dag 50 árum síðar endurtóku þau leikinn.

Skólahljómsveit Kópavogs fagnar 50 ára afmæli með stórtónleikum í Eldborg 5. mars. Tónleikarnir hefjast klukkan 17.00.

Skólahljómsveit Kópavogs hefur verið í fremstu röð íslenskra skólalúðrasveita allt frá fyrstu tónleikunum sem haldnir voru við Kársnesskóla 22. febrúar 1967 undir stjórn Björns Guðjónssonar.

Á tónleikunum í Eldborg munu um 200 hljóðfæraleikarar í fjórum hljómsveitum leika skemmtilega og hressandi tónlist úr ýmsum áttum. Meðal þess sem boðið verður upp á er frumflutningur á nýjum trompetkonsert sem saminn var af Helga Rafni Ingvarsyni, fyrrverandi nemanda SK, sérstaklega af þessu tilefni. Einleikari á trompet  verður annar fyrrverandi hljóðfæraleikari í SK, Jóhann Már Nardeau sem nú starfar sem hljóðfæraleikari í Frakklandi.

Nokkrir af fyrstu félögum SK dustuðu fyrir skömmu rykið af lúðrum sínum í tilefni afmælisins og hafa æft stíft undanfarið með það að markmiði að stíga á svið í Eldborg til að skemmta sér og áheyrendum.

Einnig munu söngvarar úr Barnakór Kársnesskóla syngja með í tveimur lögum.

Efnisskrá tónleikanna er annars mjög fjölbreytt, tónlist af ýmsum toga, bæði gömul og ný verður á boðstólum og svo er aldrei að vita nema eitthvað óvænt gerist.

Stjórnandi hljómsveitanna er Össur Geirsson.

Kynnir á tónleikunum er Anna Þóra Björnsdóttir