Aðventuhátíð í Kópavogi

Jólasveinninn í söng og dansi með börnunum
Jólasveinninn í söng og dansi með börnunum

Það var jólalegt um að litast í Kópavogi í dag en á Hálsatorgi voru jólaljósin tendruð á vinabæjartrénu frá Norrköping við hátíðlega athöfn. Veðrið var kannski ekki upp á sitt besta en börn og fullorðnir létu það ekki á sig fá. Heldur ekki jólasveinarnir sem tóku forskot á sæluna og dönsuðu í kringum jólatréð. 

Aðventuhátíð Kópavogsbæjar hefur sjaldan eða aldrei verið glæsilegri. Félagasamtök úr bænum seldu fallegan varning í jólahúsum á torginu, Karlakór Kópavogs söng í Gerðarsafni og í safnaðarheimili Kópavogskirkju voru listamenn með sölusýningu á ýmsum listmunum.  

Rauðhetta og úlfurinn frá Leikhópnum Lottu stýrðu hátíðardagskránni af miklum myndarskap og Eyþór Ingi Evróvisjón-söngvari tók lagið.

Hátíðin teygði anga sína yfir í safnahúsin á Borgarholtinu þar sem m.a. mátti finna jólaköttinn. Listamenn á svæðinu opnuðu einnig vinnustofur sínar upp á gátt og í Gjábakka, félagsheimili eldri borgara í bænum, var boðið upp á kaffi og vöfflur.
 
Fleiri jólaljós lýsa nú upp Hamraborgina og svæðið í kring en áður og hanga m.a. fallegar jólaseríur á brúnni sem hlotið hafa verðskuldaða athygli.
 
Myndir frá aðventuhátíðinni eru á Facebook-síðu Kópavogsbæjar.