Álalind gata ársins í Kópavogi

Yngstu íbúar í Álalind veittu öflugt liðsinni í gróðursetningu trés í götunni. Sigrún Hulda Jónsdót…
Yngstu íbúar í Álalind veittu öflugt liðsinni í gróðursetningu trés í götunni. Sigrún Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar og Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri eru með þeim á myndinni.

Umhverfisviðurkenningar umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs voru afhentar fimmtudaginn 15. september.

Fjórar viðurkenningar voru veittar að þessu sinni og þá var val á götu ársins kynnt. Álalind 1-20 er gata ársins en hún var valin af bæjarstjórn Kópavogs fyrr í sumar.

Í Álalind afhjúpaði Sigrún Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar viðurkenningarskjöld. Þá var gróðursett tré í götunni í tilefni viðurkenningarinnar. 

„Íbúar götunnar hafa hugað vel að umhverfi sínu og eru öðrum íbúum Kópavogs hvatning og fyrirmynd,“ segir í umsögn um götuna.

Álalind er í nýlega byggðu hverfi sem nefnist Glaðheimar. Hverfið var skipulagt á árunum 2014-2015 og hófst uppbygging 2016. Gatan var orðin fullbyggð 2021 og býr þar núna fjölmennt samfélag. Í götunni eru átta fjölbýlishús. Hún einkennist af snyrtilegum og vel hirtum lóðum, litríkum og fjölbreyttum akritektúr og skemmtilegum almenningssvæðum.

Auk þess að velja götu ársins fengu eigendur tveggja húsa viðurkenningu fyrir umhirðu húss og lóðar og þá var veitt ein viðurkenning fyrir endurgerð húsnæðis.

Nánar um viðurkenningar:

Reynihvammur 39 fékk viðurkenningu fyrir umhirðu húss og lóðar. Eigendur þess eru Kristín Helga Gísladóttir og Sigurður Einar Þorsteinsson en arkitektar eru Hörður Harðarson og Einar Júlíusson.

Garðurinn hefur verið í stöðugri þróun síðan núverandi eigendur fluttu inn fyrir rúmum 20 árum. Í honum eru mikið af sjaldgæfum plöntum og mikið ræktað af nytjajurtum.

Þinghólsbraut 58 fékk viðurkenningu fyrir umhirðu húss og lóðar. Eigendur eru Þórdís Gissurardóttir og Sverrir Örn Þórólfsson. Arkitektar eru Árni Friðriksson og Páll Gunnlaugsson.

Hugmyndir hjónanna voru að gera garðinn sjálfbæran. Í honum er nánast allur gróður sígrænn og er garðurinn brotinn upp með hleðslum og stígum sem mynda íverusvæði.

Fífuhvammur 47 fékk viðurkenningu fyrir endurgerð húsnæðis. Eigendur eru Svavar Geir Pálmarsson og Þóra Hugosdóttir. Breytingar: Alark arkitektar og Jakob Emil Líndal. Núverandi eigendur eru fjórða kynslóð hússins sem upphaflega var byggt sem sumarhús. Haldið var í ásýnd hússins við endurbyggingu þess og vandað til verka.