Álfaheiði fær jafnréttisviðurkenningu

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, hittir börnin í Álfaheiði
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, hittir börnin í Álfaheiði

Leikskólinn Álfaheiði í Kópavogi hlaut í dag jafnréttisviðurkenningu Kópavogsbæjar fyrir árið 2013. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri afhenti forsvarsmönnum skólans viðurkenninguna að viðstöddum leikskólabörnum, fulltrúum menntasviðs bæjarins og jafnréttis- og mannréttindaráðs.  Knattspyrnudeild Breiðabliks hlaut einnig jafnréttisverðlaun í ár.

Jafnréttisviðurkenningar eru veittar á hverju ári og segir í rökstuðningi jafnréttis- og mannréttindaráðs að starfsmenn leikskólans Álfaheiði hafi undanfarin tíu ár unnið í anda alþjóðlegs námsefnis sem ber heitið Lífsmennt. Námsefnið byggir á 12 jákvæðum gildum og hefur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi.  „Í skólanum er m.a. fjallað um rétt barna til nafns, fjölskyldu og að eiga heimili í gegnum leik og skapandi starf,“ segir m.a. í rökstuðningi ráðsins. 

Leikskólinn leggur einnig mikla áherslu á forvarnir, fræðslu og viðbrögð við hvers konar ofbeldi gagnvart börnum, svo sem andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu. „Að mati jafnréttis- og mannréttindaráðs Kópavogs er leikskólinn til fyrirmyndar þegar  kemur að starfi í þágu jafnréttis- og mannréttinda og er því vel að viðurkenningunni kominn." 

Leikskólastjóri er Elísabet Eyjólfsdóttir.

Leikskólinn Álfaheiði.