Alþjóðlegt handboltamót í Kórnum í sumar

Á myndinni eru frá vinstri: Áshildur Bragadóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs, Jóhann Vi…
Á myndinni eru frá vinstri: Áshildur Bragadóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs, Jóhann Viðarsson formaður barna- og unglingaráðs handknattleiksdeildar HK, Guðríður H. Baldursdóttir Mannauðsstjóri Kaupáss og Berglind Ósk Ólafsdóttir markaðsstjóri Kaupáss. Einnig eru HK stelpurnar Tinna Sól Björgvinsdóttir, Birna Mjöll Björgvinsdóttir og Telma Sól Bogadóttir á myndinni.

Alþjóðlega handboltamótið í unglingaflokki Cup Kópavogur fer fram í Kórnum í sumar og hafa nú handknattleiksdeild HK og Krónan gert með sér samning um að Krónan styðji mótið. Í tilkynningu frá Markaðsstofu Kópavogs segir að styrkurinn fari í að búa mótinu jákvæða og góða umgjörð „og kemur Krónan myndarlega að starfi handknattleiksdeildar HK með þessum samningi auk þess sem að fyrirtækið styður með þessu vel við barna- og unglingastarf félagsins.“

Markmið HK með alþjóðlegu handboltamóti eru háleit og standa vonir til þess að mótið geti orðið með fjölsóttari alþjóðlegum handboltamótum í unglingaflokki á Norðurlöndunum í nánustu framtíð. 

Kópavogur er ákjósanlegur staður fyrir alþjóðlega íþróttaviðburði vegna glæsilegra íþróttamannvirkja bæjarins, nálægðar við afþreyingu, verslun og þjónustu og öflugs íþróttastarfs, þá sérstaklega meðal barna og unglinga.

Fjórir fyrrum leikmenn í fyrstu deild HK verða verndarar mótsins. Þau eru öll þrautreyndir leikmenn í handbolta og hafa spilað með landsliðinu og erlendum félagsliðum síðustu ár. Þau eru: Björgvin Páll Gústafsson landsliðsmaður sem nú leikur Bergischer HC í Þýskalandi, Arna Sif Pálsdóttir landsliðskona sem leikur með SK Aarhus í Danmörku, Rut Arnfjörð Jónsdóttir landsliðskona sem leikur með Team Tvis Holstebro í Danmörku, og Ólafur Bjarki Ragnarsson  landsliðsmaður sem leikur með TV Emsdetten í Þýskalandi.

Berglind Ósk Ólafsdóttir, markaðsstjóri Kaupáss:  „Samningurinn við HK er mjög þýðingarmikill fyrir okkur. Með styrknum viljum við leggja okkar af mörkum til að gera félaginu  sem er nágranni okkar í Kórnum kleift að standa vel að fyrsta alþjóðlega handknattleiksmóti HK fyrir börn á aldrinum 13-16 ára og bindum við vonir við að  styrkurinn efli starf og uppbyggingu HK sem hefur verið mikil á liðnum árum. Það er vel við hæfi að Markaðsstofa Kópavogs sem hefur það hlutverk að efla atvinnuþróun og uppbyggingu í Kópavogi hafi komið á samningi milli þessara tveggja öflugu aðila í bæjarfélaginu.“


HK var formlega stofnað árið 1970 og er stærsta handknattleiksfélag landsins með um 700 handknattleiksiðkendur. Hjá félaginu er mjög öflugt barna og unglingastarf og hafa yngri flokkar drengja og stúlkna náð góðum árangri á mótum í gegnum tíðina.