Ánægja með dagforeldra í Kópavogsbæ

Kátir krakkar í daggæslu í Kópavogi.
Kátir krakkar í daggæslu í Kópavogi.

Almenn ánægja ríkir með starf dagforeldra í Kópavogi að því er fram kemur í nýrri viðhorfskönnun sem menntasvið Kópavogsbæjar lét gera í febrúar síðastliðnum. 95 prósent foreldra eru mjög ánægð eða ánægð með samstarf við dagforeldri.

97  prósent foreldra segja mjög vel eða vel tekið á móti barninu og 97 prósent segja barnið kvatt vel eða mjög vel þegar gæslu lýkur á daginn.

Þá eru 98 prósent sem segja mjög vel eða vel staðið að aðlögun barna í daggæslu.

Foreldrar voru spurðir hvað þeir væru sérstaklega ánægðir með hjá sínu dagforeldri. Meðal þess sem nefnt var í svörum foreldra var góður aðbúnaður, gott viðmót og útivera með börnum. Einnig var spurt hvað betur mætti fara. Á meðal þess sem nefnt var hér var að upplýsingar um matseðla mættu vera betri og að oftar væri farið út með börnin.

Spurðir um hvort að daggæslan stæðist væntingar sögðust  95 prósent að hún gerði það. Þá voru foreldrar spurðir um hversu ánægðir þeir væru með upplýsingar um dagskipulag og matseðil. Hér sögðust 81 prósent foreldra vera mjög ánægðir eða ánægðir með upplýsingastreymið.

Upphaflegt úrtak í könnuninni voru 198 foreldrar en 113 svöruðu henni, svarhlutfall var þannig rúm 59 prósent.

Alls starfa um 50 dagforeldrar í Kópavogsbæ.

Viðhorfskönnun menntasviðs um dagforeldra í Kópavogi.