Áningarstaður í Kórahverfi vígður

Okkar Kópavogur: Áningastaður tekinn í notkun.
Okkar Kópavogur: Áningastaður tekinn í notkun.
Áninga- og útsýnisstaður í Kórahverfi vestan við Fjallakór hefur verið tekinn í notkun. Staðurinn er hugmynd frá íbúa, Maríu Maríusdóttur, sem var valinn af íbúum Kópavogs í kosningu í verkefninu Okkar Kópavogur. Áningarstaðurinn er fyrsta verkefnið úr Okkar Kópavogi sem tekið er formlega í notkun.

 

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs og María Maríusdóttir hugmyndasmiður verksins vígðu áningastaðinn í dag.

 

Um 400 hugmyndir bárust í hugmyndasöfnun í verkefninu Okkar Kópavogur. Hugmyndum var safnað á vefnum en einnig voru haldnir fimm íbúafundir þar sem þátttakendur lögðu til hugmyndir, ræddu og kynntu og sameinuðust um. Þess má geta að María lagði sína hugmynd fram á fyrsta íbúafundinum sem haldinn var, í Vatnsendaskóla.

34 hugmyndir hlutu brautargengi að lokinni íbúakosningu sem haldin var í haust en valið stóð á milli 100 hugmynda, 20 í hverju hverfi. Hafist var handa við framkvæmdir að kosningu lokinni, nokkrum verkefnum er lokið og önnur eru í framkvæmd eða undirbúningi.  Framkvæmdum verkefnanna 34 mun ljúka næsta sumar. 200 milljónum er varið til verkefnanna og var fjármununum ráðstafað til hverfanna í samræmi við fjölda íbúa í hverfunum.

www.kopavogur.is/okkarkopavogur