Hægt er að sækja um garðlönd til leigu á sex stöðum í Kópavogsbæ. Hver skiki er 25 fermetrar að stærð og er leigugjald 4.700 krónur. Hver leigjandi getur verið með tvo skika en skilyrði fyrir úthlutun er að eiga lögheimili í Kópavogi. Garðlönd eru plægð og afhent um miðjan maí ef veður leyfir.
Rúmlega 6.000 gestir heimsóttu Bókasafn Kópavogs vikuna eftir að safnið var opnað á ný eftir viðamiklar breytingar á innra rými þess. Með breytingunum var leitast við að mæta betur þörfum safngesta. Til dæmis er nú meira pláss fyrir gesti sem vilja glugga í bókum eða tímaritum og barnadeild safnsins var færð niður á fyrstu hæð en áður var hún á þriðju hæðinni.