Árleg ferð í Guðmundarlund vekur lukku

Þéttsetið var á samkomu Félagsmiðstöðva eldri borgara í Kópavogi bæði utan- og innandyra.
Þéttsetið var á samkomu Félagsmiðstöðva eldri borgara í Kópavogi bæði utan- og innandyra.

Margt var um manninn í árlegri ferð eldri borgara í Guðmundarlund síðastliðinn fimmtudag 15. júlí. Félagsmiðstöðvar eldri borgara í Kópavogi stóðu fyrir samkomunni en rútur fóru frá öllum félagsmiðstöðvum með félagsmenn og tók Skógræktarfélag Kópavogs vel á móti þeim. Léttar veitingar voru í boði og sólin lék við gestina er þau sungu gamanlög með Erni Árnasyni, leikara og skemmtikrafti.

 

Þéttsetið var á samkomunni bæði utan- og innandyra og hópuðust gestir saman fyrir ræðuhöld. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri ávarpaði gestina og ræður fluttu Ragnar Jónasson, formaður eldri borgara í Kópavogi og Þröstur Magnússon, formaður Skógræktarfélags Kópavogs.

 

Samkoman endaði á balli með öðruvísi sniði en boðið var upp á “silent disco”. Allir félagsmenn fengu heyrnartól og dönsuðu saman en við sitthvora tónlistina. Ferðin vakti mikla lukku og voru eldri borgarar hæstánægðir að fá að koma saman í Guðmundarlundi og njóta ferska loftsins í góðum félagsskap.

 

Þetta sumar er frábrugðið síðasta sumri að því leyti að samkomutakmörkunum hefur verið aflétt sem býður upp á þann möguleika að halda fleiri viðburði. Dagskrá félagsmiðstöðva eldri borgara er því fjölbreytt í sumar en henni lýkur þann 13. ágúst.