Ármann tekur við lyklavöldunum af Guðrúnu

Guðrún Pálsdóttir færir Ármanni Kr. Ólafssyni lyklana að skrifstofu bæjarstjóra.
Guðrún Pálsdóttir færir Ármanni Kr. Ólafssyni lyklana að skrifstofu bæjarstjóra.

Ármann Kr. Ólafsson tók við lyklavöldunum af Guðrúnu Pálsdóttur á bæjarstjóraskrifstofu Kópavogs í dag. Ármann var kjörinn bæjarstjóri á fundi bæjarstjórnar í vikunni. Guðrún hverfur nú til annarra starfa hjá bænum en hún varð bæjarstjóri í júní 2010.

Nýr meirihluti var myndaður í bænum í síðustu viku af Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Y-Lista Kópavogsbúa. Tók hann formlega við stjórnartaumunum á þriðjudag.

Ármann er fæddur 17. júlí 1966. Hann er stjórnmálafræðingur að mennt og hefur verið bæjarfulltrúi í Kópavogi síðan 1998. Hann var forseti bæjarstjórnar á árunum 2000 til 2001 og 2005 til 2007.

Hann hefur átt sæti í bæjarráði en auk þess verið formaður skipulagsnefndar Kópavogsbæjar, skólanefndar, atvinnumálanefndar og félagsmálaráðs. Þá var hann formaður stjórnar Strætó á árunum 2006 til 2008.

Ármann var þingmaður á árunum 2007 til 2009 og starfaði eftir það við nýsköpun við útflutning sjávarafurða. Hann var áður aðstoðarmaður þriggja ráðherra á ellefu ára tímabili og er stofnandi auglýsingastofunnar ENNEMM þar sem hann var framkvæmdastjóri á árunum 1991 til 1995.