Íþróttakona og íþróttakarl 2021 kjörin

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Tinna Sif Teitsdóttir íþróttakona ársins, Arnar Pétursson íþróttak…
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Tinna Sif Teitsdóttir íþróttakona ársins, Arnar Pétursson íþróttakarl ársins og Jón Finnbogason formaður íþróttaráðs.

Arnar Pétursson frjálsíþróttamaður úr Breiðabliki og Tinna Sif Teitsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2021.

Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum fimmtudaginn 13. janúar. Fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs afhenti þeim hvoru um sig 200 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.

Arnar og Tinna Sif voru valin úr hópi 46 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.

Arnar Pétursson

Arnar vann alls níu íslandsmeistaratitla á árinu 2021. Þetta gerði hann í mismunandi greinum allt frá 1500m hlaupi innanhús og upp í heilt maraþon úti. Hann sigraði einnig í 800 m hlaupi á Reykjavík International Games 2021. Arnar hefur samtals orðið 45 sinnum Íslandsmeistari í langhlaupum á löngum ferli sínum. Hann er fyrirmynd annarra hlaupara á landsvísu og býr yfir mikilli ástríðu fyrir íþrótt sinni. Auk þess að stunda hlaup sjálfur starfar Arnar sem hlaupaþjálfari og fyrirlesari en hann býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu af hlaupum. Arnar var valinn frjálsíþróttakarl ársins 2021 hjá Breiðabliki jafnframt því að vera útnefndur götuhlaupari ársins hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands.

Tinna Sif Teitsdóttir

Tinna Sif varð Evrópumeistari í hópfimleikum kvenna með íslenska landsliðinu nú í desember 2021. Þar var hún mikilvægur hlekkur í úrslitakeppninni er hún skilaði flottum umferðum á dýnustökki og var með frábærar gólfæfingar. Hún er uppalin Gerplukona sem hóf ferilinn í áhaldafimleikum og náði að vinna til fjölda Íslands- og bikarmeistaratitla í þeirri grein. Þegar hún skipti yfir í hópfimleikana var hún fljót að tileinka sér hópfimleikagreinarnar, á dýnu og trampólíni og ekki síst í gólfæfingum. Hún varð í 2. sæti á Íslandsmótinu í hópfimleikum með liði Gerplu. Þar skilaði hún að meðaltali fjórum umferðum og var lykilmanneskja í æfingum á gólfi og var valin í íslenska landsliðið.

Viðurkenningar

Flokkur 17 ára og eldri:

Agata Erna Jack dans, Agla María Albertsdótir knattspyrna, Arnar Pétursson frjálsar íþróttir, Aron Snær Júlíusson golf, Hulda Clara Gestsdóttir golf, Ingvar Ómarsson hjólreiðar, Marín Aníta Hilmarsdóttir bogfimi, Patrik Viggó Vilbergsson sund, Sigurður Örn Ragnarsson þríþraut, Sóley Margrét Jónsdóttir kraftlyftingar, Tinna Sif Teitsdóttir hópfimleikar, Valgarð Reinhardsson áhaldafimleikar.

Flokkur 13 til 16 ára:

Arey Amilía Sigþórsdóttir McClure karate, Atli Elvarsson fimleikar, Auður Elín Gústavsdóttir dans, Ágúst Orri Þorsteinsson knattspyrna, Bjartur Freyr Bjarnason körfuknattleikur, Daníel Wang tennis, Embla Steindórsdóttir handknattleikur, Eva Karen Ólafsdóttir dans, Freyja Birkisdóttir sund, Freyja Dís Benediktsdóttir bogfimi, Guðjón Erik Óskarsson dans, Guðmundur Karl Karlsson sund, Gunnlaugur Árni Sveinsson golf, Helena Einarsdóttir blak, Helgi Trausti Stefánsson skíði, Henríetta Ágústsdóttir knattspyrna, Herdís Björg Jóhannsdóttir hestaíþróttir, Hrafnhildur Eva Davíðsdóttir dans, Ingibert Snær Erlingsson handknattleikur, Ingólfur Bjartur Magnússon dans, Júlía Kristín Jóhannesdóttir frjálsar íþróttir, Karen Lind Stefánsdóttir golf, Kristján Snær Frostason knattspyrna, Lilja Dís Gunnarsdóttir körfuknattleikur, Margrét Brynja Kristinsdóttir knattspyrna, Margrét Davíðsdóttir skíði, Markús Birgisson frjálsar íþróttir, Nicole Chakmakova tennis, Patrek Hall Einarsson bogfimi, Ragnar Bjarki Sveinbjörnsson hestaíþróttir, Samúel Týr Sigþórsson McClure karate, Sigurður Kári Harðarson blak, Sóley Jóhannesdóttir fimleikar, Viðar Snær Hilmarsson dans.

Flokkur ársins 2021 var kjörinn meistaraflokkur Breiðabliks í knattspyrnu kvenna en liðið varð bikarmeistari í knattspyrnu á árinu og náði einnig þeim merka áfanga að komast í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu.