Árshlutareikningur Kópavogsbæjar

Árshlutareikningur Kópavogsbæjar var birtur 1. september 2022.
Árshlutareikningur Kópavogsbæjar var birtur 1. september 2022.

Rekstrarniðurstaða samstæðu Kópavogsbæjar á fyrri helmingi ársins 2022 var neikvæð um 1,3 milljarða króna en áætlun ársins gerði ráð fyrir rekstrarhalla að fjárhæð 830 milljónir króna. Tekjur bæjarins eru um 950 milljónir króna, umfram áætlun, og rekstrargjöld 549 milljónum króna umfram áætlun. Þar vegur þyngst að snjómokstur var rúmum 200 milljónum hærri en áætlað var.

Megin skýring á verri afkomu er sú að verðbólga er hærri en gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins en fjármagnsliðir, það er vextir og verðbætur, eru 776 milljónum króna yfir áætlun eða um 93%. Ef vextir og verðbólga hefði verið eftir því sem áætlað var væri afkoman rúmum 300 milljónum betri en áætlað var.

Í fyrsta sinn átti að taka tillit til hlutdeildar Kópavogsbæjar í rekstri hlutdeildarfyrirtækja, sem eru sameiginleg félög sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. En vegna þess að ekki bárust upplýsingar frá þeim öllum, eru þau ekki með í árshlutareikningnum.

Heildarskuldir samstæðunnar hafa lækkað nettó frá áramótum um 213 milljónir króna, sé horft fram hjá hlutdeildarfélögum.

Þess má geta að í sögulegu samhengi falla um 47-49% af tekjum ársins á fyrri hluta þess. Óvíst er hver þessi þróun verður það sem eftir er árs, en þó eru ákveðnar líkur á því að það versta sé yfirstaðið sé horft á stöðu atvinnulífsins og þróun á vinnumarkaði.

Þetta kemur fram í óendurskoðuðum árshlutareikningi Kópavogsbæjar fyrir tímabilið 1.janúar til 30.júní 2022, sem lagður var fram í bæjarráði Kópavogs, 1. september.

Skoða árshlutareikning