Áshildur er framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs

Áshildur Bragadóttir
Áshildur Bragadóttir

Áshildur Bragadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs. Markaðsstofan er nýr samstarfsvettvangur Kópavogsbæjar og fyrirtækja í bænum. Tilgangur markaðsstofunnar er að efla atvinnuþróun og starfa að ferða- og markaðsmálum í Kópavogi í samvinnu við alla þá aðila sem vilja stuðla að uppbyggingu innan Kópavogs.

Í stjórn Markaðsstofu Kópavogs eru fulltrúar tilnefndir af bænum og atvinnulífinu og er Theodóra Þorsteinsdóttir formaður stjórnar. Stofnfundur Markaðsstofu Kópavogs fór fram í febrúar sl. og í kjölfarið var starf framkvæmdastjóra auglýst. Fjöldi umsókna barst og var það samhljóma mat stjórnar að Áshildur Bragadóttir uppfyllti best umsækjenda þau skilyrði sem sett voru fram í auglýsingu um starfið.

Að sögn Áshildar mun hún í fyrstu einbeita sér að því að mynda góð tengsl við fyrirtækin og aðra hagsmunaaðila í Kópavogi. Önnur brýn verkefni eru mótun stefnu og framtíðarsýnar fyrir Markaðsstofu Kópavogs, að styrkja fjárhagslegan rekstur hennar og að koma á fót vefsíðu til að kynna þá fjölbreyttu þjónustu og afþreyingu sem Kópavogur hefur upp á að bjóða.

„Það er markmið mitt að Markaðsstofa Kópavogs verði öflugur samstarfsvettvangur einstaklinga, fyrirtækja, samtaka, íþróttafélaga og menningarstofnana í bænum til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum og styrkja ímynd Kópavogs sem miðstöð verslunar- og þjónustu. Ég er mjög spennt fyrir verkefnunum framundan og vona að markaðsstofu verði vel tekið af hagsmunaaðilum og bæjarbúum,“ segir Áshildur.

Áshildur Bragadóttir er með M.Sc. í viðskiptafræði og starfaði sem markaðsstjóri hjá Remake Electric áður en hún var ráðin til Markaðsstofu Kópavogs. Þar áður var hún deildarstjóri hjá Landsbankanum og sérfræðingur í markaðsmálum, en hún hefur einnig starfað hjá Háskóla Íslands, Apparat, Stígamótum og fjármálaráðuneytinu.