Ásthildur Helgadóttir ráðin sviðsstjóri umhverfissviðs

Ásthildur Helgadóttir er nýr sviðsstjóri umhverfissviðs.
Ásthildur Helgadóttir er nýr sviðsstjóri umhverfissviðs.

Ásthildur Helgadóttir hefur verið ráðin sviðstjóri umhverfissviðs Kópavogsbæjar. Ásthildur var valin úr hópi 87 umsækjenda.

Ásthildur hefur undanfarin ár starfað sem verkfræðingur á Íslandi fyrir byggingarverktakana GG Verk og Munck Íslandi, og í Svíþjóð fyrir byggingarverktakana Peab AB í Malmö og NIMAB AB í Sjöbo og NCC Construction AB í Malmö. Einnig starfaði hún á sínum tíma hjá verkfræðistofunni Línuhönnun og vann sem sérfræðingur í eignastýringu hjá Landsbanka Íslands.

Ásthildur var bæjarfulltrúi í Kópavogi árin 2006-2009 og gegndi þá stöðu formanns íþrótta- og tómstundanefndar Kópavogs.

Ásthildur starfaði áður um fjögurra ára skeið sem atvinnumaður í knattspyrnu í Malmö í Svíþjóð og var fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu árin 2001-2007. Þá starfaði hún sem formaður Íþróttanefndar ríkisins um skeið.

Ásthildur er með meistaragráðu í byggingarverkfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð og með B.E. gráðu í verkfræði frá Vanderbilt háskólanum í Bandaríkjunum.

Kópavogsbær býður Ásthildi velkomna til starfa.