Atvinnutorg fyrir ungt fólk í Kópavogi

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar og Guðbjartur Hanne…
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra undirrituðu samstarfsyfirlýsingu þessara aðila í dag.

Atvinnutorgi fyrir ungt fólk í Kópavogi hefur nú verið komið á fót en markmiðið er að auka virkni ungs fólks á aldrinum 16 til 25 ára, sem hvorki er í vinnu né skóla, og aðstoða það við að fóta sig á vinnumarkaði eða í námi. Atvinnutorgið er tilraunaverkefni Kópavogsbæjar, Vinnumálastofnunar og velferðarráðuneytisins og nær til þriggja ára.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra undirrituðu samstarfsyfirlýsingu þessara aðila í dag.

Aðsetur atvinnutorgsins er hjá velferðarsviði Kópavogsbæjar og fjármagnar bærinn launakostnað eins ráðgjafa hjá torginu og hóf hann störf í dag. Vinnumálastofnun leggur til atvinnuráðgjafa tvo daga vikunnar og ríkissjóður greiðir hluta annars rekstrarkostnaðar.

 Hlutverk ráðgjafa torgsins verður m.a. að ná til ungs fólks á aldrinum 18 til 25 ára sem fær fjárhagsaðstoð frá bænum og veita því ráðgjöf, starfsþjálfun og tímabundin störf. Nú þegar eru til  reiðu  störf hjá Kópavogsbæ sem nýta á til starfsþjálfunar í  allt að 6 mánuði. Unga fólkið sem um ræðir fær ekki greidda fjárhagsaðstoð á þjálfunartímanum, heldur laun fyrir starf.

Einnig er ætlunin að ná til  ungs fólks frá 16 ára aldri sem ekki hefur sótt um fjárhagsaðstoð og bjóða því námstengd vinnumarkaðsúrræði.

Sambærileg atvinnutorg eru í Reykjavík, Hafnarfirði og Reykjanesbæ.