Auglýst eftir bæjar- og heiðurslistamanni

Theodór Júlíusson heiðurslistamaður 2014, Jón Adolf Steinólfsson bæjarlistamaður 2015, Ragnar Th. S…
Theodór Júlíusson heiðurslistamaður 2014, Jón Adolf Steinólfsson bæjarlistamaður 2015, Ragnar Th. Sigurðsson heiðurslistamaður 2015, Karen E. Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstóri Kópavogs.

Lista- og menningarráð Kópavogs auglýsir eftir umsóknum  eða  ábendingum  um  bæjarlistamann Kópavogs og heiðurslistamann Kópavogs. Bæjarlistamaður Kópavogs skal vera tilbúinn til að vinna með lista- og menningarráði og menningarhúsum bæjarins að því að efla áhuga á list og  listsköpun í Kópavogi og taka þátt í viðburðum bæjarins með það að leiðarljósi. Með vali á heiðurslistamanni er verið að heiðra listamann fyrir ævistarf.

Tilgangurinn er að varpa ljósi á þá fjölmörgu og hæfileikaríku listamenn sem búa í Kópavogi og hafa átt þátt í því að auðga menningarlíf bæjarins í gegnum árin. Lista- og menningarráð fer yfir umsóknir og ábendingar og tilnefnir bæjarlistamann og heiðurslistamann til eins árs í senn.

Styrkupphæð bæjarlistamanns nemur einni milljón króna. Í umsóknum eða ábendingum skulu koma fram upplýsingar um náms- og starfsferil viðkomandi og með ábendingu eða umsókn um bæjarlistamann skulu auk þess koma fram hugmyndir um á hvern hátt nýta eigi styrkinn við listsköpun.

Umsókn eða ábendingar skal senda fyrir 1. maí á netfangið:  menning@kopavogur.is.

Þeir listamenn koma einir til greina sem eiga lögheimili í Kópavogi. 

Lista- og menningarráð hefur um árabil heiðrað listamann í Kópavogi fyrir ævistarf en síðustu ár hefur það einnig útnefnt bæjarlistmann. Jón Adolf Steinólfsson var útnefndur bæjarlistamaður á síðasta ári og  heiðurslistamaður Kópavogs er Ragnar Th. Sigurðsson.