Bæjar- og heiðurslistamaður

Ásgeir Ásgeirsson bæjarlistamaður Kópavogs 2016 og Kristín Þorkelsdóttir heiðurslistamaður 2016 ása…
Ásgeir Ásgeirsson bæjarlistamaður Kópavogs 2016 og Kristín Þorkelsdóttir heiðurslistamaður 2016 ásamt bæjarstjóra, formanni lista- og menningarráðs og nefndarmönnum.

Lista- og menningarráð Kópavogs auglýsir eftir umsóknum  eða  ábendingum  um  bæjarlistamann Kópavogs og heiðurslistamann Kópavogs. Þeir listamenn koma einir til greina sem eiga lögheimili í Kópavogi.

Bæjarlistamaður Kópavogs skal vera tilbúinn til að vinna með Menningarhúsum Kópavogs að því að efla áhuga á list og  listsköpun í bænum og taka þátt í viðburðum bæjarins með það að leiðarljósi. Styrkupphæð bæjarlistamanns er á bilinu 1 til 1,5 milljónir króna.

Með vali á heiðurslistamanni er verið að heiðra listamann fyrir ævistarf.

Lista- og menningarráð fer yfir umsóknir og ábendingar. Í umsóknum eða ábendingum skulu koma fram upplýsingar um náms- og starfsferil viðkomandi og með tillögu að bæjarlistamanni skulu auk þess koma fram hugmyndir um á hvern hátt nýta eigi styrkinn við listsköpun.

Umsókn eða ábendingar skal senda fyrir 6. apríl á netfangið:  menning@kopavogur.is.

Kristín Þorkelsdóttir myndlistarmaður var útnefnd heiðurslistamaður Kópavogs á síðasta ári og Ásgeir Ásgeirsson gítarleikari var útnefndur bæjarlistamaður. Sem bæjarlistamaður heimsótti Ásgeir alla skóla í Kópavogi og flutti tónlist frá Balkanskaganum ásamt félögum sínum. Var verkefnið hluti af fræðsluverkefni Menningarhúsa Kópavogsbæjar sem ber heitið Menning fyrir alla.