Bæjarstjóri ræðir uppáhalds bækurnar

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.

Bókasafn Kópavogs verður 65 ára fimmtudaginn 15.mars. Í tilefni dagsins mun Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, ræða uppáhalds barnabækurnar sínar, hvað var lesið fyrir hann barnungan og hvaða bækur hrifu hann sem ungan dreng og ungling á  Amtsbókasafninu á Akureyri.

Að loknu spjalli Ármanns hefst leiðsögn Guðfinnu Mjallar Magnúsdóttur hönnuðar um sýninguna Áhrifavaldar æskunnar þar sem barnabókum síðustu 100 ára er stillt upp. Viðburðurinn hefst klukkan 12.15.

Til að halda upp á daginn verður kaffi og súkkulaði í boði á afgreiðslutíma Lindasafns og aðalsafns og 10% afsláttur úr safnbúðinni.

Um Bókasafn Kópavogs:

Bókasafn Kópavogs var stofnað þann 15. mars árið 1953 þegar Lestrarfélags Kópavogs hélt sinn fyrsta fund. Síðar breyttist það í Bókasafn Kópavogs. Lestrarfélagið var stofnað af bókelskum íbúum Kópavogs, sem þá var að byrja að byggjast. Þessi framtakssemi og þessi metnaður sem þá var sýndur hefur nú verið safninu leiðarljós í 65 ár.

Aðalsafn Bókasafns Kópavogs flutti árið 2002 í núverandi húsnæði að Hamraborg 6a og sama ár opnaði safnið útibú í Lindahverfi, Lindasafn. Meginhlutverk safnsins er fyrst og fremst að bjóða Kópavogsbúum og öðrum aðgengi að þekkingu og stuðla að fjölbreyttri, öflugri og skipulagðri menningarstarfsemi- og fræðslu fyrir samfélagið í heild.