Bæta má nýtingu Fífunnar

Skjaldarmerki Kópavogsbæjar
Skjaldarmerki Kópavogsbæjar

Bæta má nýtingu tíma í knatthúsinu Fífunni í Kópavogi samkvæmt skýrslu sem fjallar um aðstöðu til knattspyrnuiðkunar í íþróttamannvirkjum sem Breiðablik hefur til nota í sveitarfélaginu. VSÓ ráðgjöf gerði skýrsluna fyrir Kópavogsbæ.

Margvíslegar upplýsingar voru rýndar við gerð skýrslunnar, til dæmis fjöldi iðkenda, tegund og stærð mannvirkja sem Breiðablik nýtir, kröfur um tegund æfingasvæða og nýting Fífunnar.

Niðurstöður skýrslunnar eru meðal annars þær að nýta mætti Fífuna betur með því að lengja tímann sem hún er nýtt til knattspyrnuiðkunar. Bent er á að nýta mætti betur tíma á milli 14 og 15, með samstarfi og samráði skólayfirvalda og íþróttafélaga væri hægt að hefja æfingar klukkan 14.00. Þá mætti færa eldri flokka að hluta til yfir á morgnana og fá þannig betri nýtingu fyrir yngri flokka síðdegis í Fífunni.

Þá er lagt til í skýrslunni að gervigras í Fagralundi verði endurnýjað og völlurinn upphitaður. Með því að endurnýja völlinn verði þörf Breiðabliks fyrir æfingaraðstöðu fullnægt en ástand vallar í Fagralundi hefur dregið úr notkun hans. Einnig er lagt til að íþróttahús í nærumhverfi yngstu iðkenda verði nýtt betur.

Í skýrslunni kemur einnig fram að aðstaða Breiðabliks er með því besta sem gerist á landinu. Það er í samræmi við metnað Kópavogsbæjar til þess að búa vel að íþróttafélögum bæjarins.

Skýrslan er hugsuð sem rýni á aðstöðu Breiðabliks og getur nýst félaginu til betri nýtingar á mannvirkjum sem félagið hefur yfirráð yfir.

Skýrslan