Barnamenning sumardaginn fyrsta

Frá Ormadögum í Kópavogi 2015, barnamenningarhátíð Kópavogs.
Frá Ormadögum í Kópavogi 2015, barnamenningarhátíð Kópavogs.

Menningarhúsin í Kópavogi; Bókasafn Kópavogs, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Tónlistarsafn Íslands og Gerðarsafn verða opin á sumardaginn fyrsta og bjóða fjölbreytta menningardagskrá fyrir börn á öllum aldri kl. 11:00 – 17:00. Þetta er í fyrsta sinn sem menningarhúsin í Kópavogi verða með skipulagða dagskrá á þessum upphafsdegi sumars.

Dagskráin er hluti af Ormadögum, barnamenningarhátíð Kópavogs. Þema hátíðarinnar er að þessu sinni ferðalög. Börnin kynnast meðal annars tónlist og dansi frá ýmsum löndum, ólíkum hljóðfærum, farfuglum og fleira. Ókeypis er inn á alla viðburði.

Sjá dagskrá hér

Garðskálinn, veitingahúsið í Gerðarsafni, verður opinn á sama tíma,  kl. 11:00– 17:00.

Daginn eftir sumardaginn fyrsta, eða á föstudeginum, verða tónleikar í Salnum kl. 10:30 fyrir leikskólabörn í Kópavogi. Þar verður leikin tónlist frá löndum eins og Makedóníu, Búlgaríu, Grikklandi og Tyrklandi í flutningi strákanna í hljómsveitinni Skuggamyndir frá Býsans.

Ormadagar hefjast mánudaginn 18. apríl og verður leikskólabörnum í Kópavogi þá vikuna boðið að koma og taka þátt í lista- og fræðslusmiðjum í menningarhúsum bæjarins. Tónlistarskóli Kópavogs og nemendur hans taka einnig þátt í hátíðinni.

Sem fyrr segir verður hápunkturinn á sumardaginn fyrsta og á laugardeginum verður fjölskyldustund á Bókasafni Kópavogs: Byggt úr legó. Hátíðinni lýkur á sunnudeginum með barnamenningarmessu í Kópavogskirkju.

Markmið  hátíðarinnar er að fræða börn um listir, menningu og ólíka menningarheima og gefa þeim um leið innsýn í starf safna, tónlistarskóla og tónleikahúss. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Pamela De Sensi flautuleikari en hún skipuleggur hátíðina í samstarfi við starfsmenn menningarhúsa Kópavogsbæjar. Hátíðin er styrkt með framlagi úr lista- og menningarsjóði Kópavogsbæjar.

Barnamenning verður ekki eingöngu í hávegum höfð í Kópavogi um þetta leyti heldur einnig víðar á höfuðborgarsvæðinu, svo sem í Reykjavík, Hafnarfirði, Mosfellsbæ, Garðabæ og á Seltjarnarnesi.