Barnamenningarhátíð í Kópavogi

Ormadagar hafa verið haldnir hátíðlegir í nokkur ár, hér er mynd frá árinu 2014.
Ormadagar hafa verið haldnir hátíðlegir í nokkur ár, hér er mynd frá árinu 2014.

Ormadagar, barnamenningarhátíð Kópavogsbæjar, hefjast 26. maí og lýkur með glæsilegri uppskeruhátíð í menningarhúsum bæjarins og í Kópavogskirkju helgina 30. og 31. maí.  Þema hátíðarinnar er:  Gamalt og nýtt og verður áhersla lögð á gamla útileiki og gömul leikföng. Allir eru velkomnir og ókeypis er inn á alla viðburði. Ormadagarnir hefjast með skipulögðum heimsóknum leik- og grunnskólabarna í öll menningarhús bæjarins fram eftir viku. Yfir 2.000 börn hafa boðað komu sína.

Þau munu m.a. taka þátt í listasmiðju í Gerðarsafni,  söngtónleikum í Salnum, fá fræðslu um orma í Náttúrufræðistofu Kópavogs og hlusta á ormaævintýri í Bókasafni Kópavogs. 

Ormadagarnir enda með uppskeruhátíð á laugardeginum þar sem m.a. verður hægt að fara í blöðrubolta, risakeilu og aðra leiki á leik- og útivistarsvæðinu við menningarhúsin. Þar verður einnig flugdrekanámskeið á vegum Bókasafns Kópavogs. Leikfangasýning með gömlu leikföngum frá Árbæjarsafni verður á annarri og þriðju hæð bókasafnsins.

Náttúrufræðistofa Kópavogs sýnir gestum og gangandi stóra og litla orma og í Salnum verða tónleikar með kór Kársnesskóla, þjóðlagahóp Tónlistarskóla Kópavogs og barnahóp Þjóðdansafélags Reykjavíkur. Í Gerðarsafni verður fjölskyldusmiðja og í Tónlistarsafni Íslands verður þjóðdans og leikir  með yngsta hópi Þjóðdansafélags Reykjavíkur. Á sunnudeginum verður svo barnamenningarmessa í Kópavogskirkju með kór Kársnesskóla og nemendum Tónlistarskóla Kópavogs.

Listrænn stjórnandi hátíðarinna er Pamela De Sensi tónlistarkona. Hátíðin er haldin í samstarfi hennar og menningarhúsa bæjarins með styrk úr lista- og menningarsjóði.

Dagskrá: Ormadagar – Barnamenningarhátíð Kópavogs helgina 30. og 31. maí.

Laugardagur 30. maí

12 til 18: Blöðrubolti, risakeilur, ringulreið og leikir fyrri tíma við menningarhúsin.

13 til 13:30: „Syngjum saman“. Kór Kársnesskóla syngur í Kópavogskirkju.

13 til 13:45: Dönsum öll í hring með Elínu Svövu og Þjóðdansafélaginu í Tónlistarsafni Íslands.

13 til 16: Flugdrekanámskeið í Bókasafni Kópavogs 1. hæð.

13 til 17: Leikfangasýning frá Árbæjarsafni á 2. og 3. hæð í Bókasafni Kópavogs.

13 til 17: Ormasýning og fræðsla í Náttúrufræðistofu Kópavogs.

13 til 17: Kaffi og kleinur í Tónlistarsafni Íslands.

14 til 16: „Gneggjar, tístir og syngur“. Tónleikar í Salnum. Kór Kársnesskóla, Þjóðlagahópur Tónlistarskóla Kópavogs og barnahópur Þjóðdansafélags Reykjavíkur.

15 til 16: „Birting“. Fjölskyldusmiðja í Gerðarsafni.

Sunnudagur 31. maí

11 til 12: Barnamenningarmessa í Kópavogskirkju með kór Kársnesskóla og nemendum Tónlistarskóla Kópavogs.

Aðgangur er ókeypis á alla viðburði Ormadaga.