Barnamenningarhátíð í Kópavogi

Magga Stína og nemendur í Smáraskóla undirbúa atriði fyrir Barnamenningarhátíð í Kópavogi.
Magga Stína og nemendur í Smáraskóla undirbúa atriði fyrir Barnamenningarhátíð í Kópavogi.

Dagana 25. – 29. apríl fer fram Barnamenningarhátíð í Menningarhúsunum í Kópavogi en að þessu sinni verður dagskrá fyrir leikskóla- sem og grunnskólakrakka í Gerðarsafni, Náttúrufræðistofu og Bókasafni Kópavogs og í Salnum.

Leikskólahópum býðst að sækja dagskrá um selinn í Náttúrufræðistofu og á Bókasafninu og að hlusta á Dúó Stemmu í Salnum. Grunnskólahópar geta hinsvegar sótt listsmiðju í Gerðarsafn og fræðsludagskrá um seli í Náttúrufræðistofu en auk þess býðst unglingum að sækja námskeið hjá Steinunni Eldflaug sem mun kenna undirstöðuatriði í raftónlistargerð í Molanum, ungmennahúsi.

Uppskeruhátíð 29. apríl

Laugardaginn 29. apríl verður nokkurskonar uppskeruhátíð þar sem fjölskyldum gefst færi á að upplifa það sem skólahópar hafa unnið að og upplifað dagana á undan.

 

Bókasafn Kópavogs: Ljóðatrúðurinn Gjóla verður með smiðju á Bókasafninu frá 13-15 en sýning á myndskreyttum ljóðum sem leikskólabörn á Álfatúni og Marbakka unnu með trúðnum verður á fyrstu hæð Bókasafnsins.

Salurinn: Opnuð sýning á gluggaverki í Salnum eftir unglinga úr Kársnesskóla en þau unnu verk í anda Gerðar Helgadóttur með myndlistarkennara sínum, Guðnýju Jónsdóttur ásamt myndlistarmanninum Guðrúnu Kristjánsdóttur.

Salurinn:  Þjóðlagatónleikar klukkan 14 í Salnum en þar koma fram 5. bekkingar Smáraskóla ásamt Möggu Stínu en hópurinn hefur unnið að útsetningu á þjóðlögum. Til að varpa ljósi á ótal möguleika við flutning á þjóðlögum mun þjóðlagahópurinn Þula koma fram en meðlimir hópsins eru nemendur í Tónlistarskóla Kópavogs. Á tónleikunum lýkur svo Ásgeir Ásgeirsson gítarleikari bæjarlistamannsári sínu en hann og félagar hans munu leyfa gestum að heyra þjóðlög í enn annarri mynd.

Gerðarsafn: Fjölskyldum gefst kostur á að gera sín eigin listaverk innblásin af verkum Gerðar Helgadóttur í Gerðarsafni.

Náttúrfræðistofa: Boðið uppá fræðsludagskrá um seli og fjölskyldur hvattar til að taka selfie með útsel sem staðsettur verður í anddyrinu.

Dagskránni lýkur svo með kennslu á parabólu á útivistarsvæði Menningarhúsanna en trommuleikarinn Dísa mun kenna trommuslátt svo krakkar á öllum aldri geti notið þess að spila á parabóluna hvenær sem er.