Blikahjalli er gata ársins

Margrét Friðriksdóttir og Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs, gróðursettu tré í götunni o…
Margrét Friðriksdóttir og Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs, gróðursettu tré í götunni og nutu við það aðstoð yngstu íbúa götunnar.

Umhverfisviðurkenningar umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs voru afhentar fimmtudaginn 26.ágúst. 

Fjórar viðurkenningar voru veittar að þessu sinni og þá var val á götu ársins kynnt. Blikahjalli 1-18 er gata ársins en hún var valin af bæjarstjórn Kópavogs fyrr í sumar.

Í Blikahjalla afhjúpaði Margrét Friðriksdóttir forseti bæjarstjórnar viðurkenningarskjöld. Þá gróðursettu Margrét og Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs, tré í götunni og nutu við það aðstoð yngstu íbúa götunnar. 

„Við Blikahjalla 1-18 standa 13 lágreist raðhús sem mynda fallega og stílhreina heild. 

Hjallahverfið í Kópavogi var skipulagt árið 1990 og er mjög miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og hefur verið vinsælt meðal fjölskyldufólks. 

Húsin í Blikahjalla bera heildaryfirbragð arkitekts og mjög vel hefur tekist til við byggingu húsa og frágang lóða og viðhalda þeirri sérstöðu sem arkitektúr  húsanna veitir götunni.  

Alls eru um 56 íbúar í götunni í þeim 13 húsum sem standa við Blikahjalla 1-18. Hverfið byggðist upp að mestu á árinum 1994-1999, bygging par- og raðhúsanna við Blikahjalla 2-6 hófst 1994 og 1995 og síðan bygging á Blikahjalla 3-11 árið 1996, síðustu hús götunnar voru að rísa upp úr aldamótum og síðan þá hafa húsin verið mikið prýði fyrir bæjarfélagið. 

Útlit húsanna er afskaplega stílhreint og hafa íbúar viðhaldið því útliti í gegnum tímanna rás og eru húsin enn þann dag í dag mikið prýði fyrir bæjarfélagið.

Gatan einkennist af vel hirtum lóðum og stílhreinum og snyrtilegum húsum sem mynda fallega heildarmynd í götunni.

Íbúar í Blikahjalla eru vel að viðurkenningunni komnir fyrir að hafa hugað vel að umhverfi sínu, haldið húsum sínum og lóðum snyrtilegum og götunni fallegri í áranna rás. Íbúar götunnar eru öðrum íbúum Kópavogs hvatning og fyrirmynd,” segir í umsögn um götuna. 

 

Viðurkenningar umhverfis- og samgöngunefndar 2021

 

Umhirða húss og lóðar

 

Kópavogstún 3-5. Húsfélagið Kópavogstúni 3-5.

 

Álfhólsvegur 59. Berglind Anna Káradóttir og Sigurður Hafliði Árnason.

 

Langabrekka 21. Jón Bergmann Ingimagnsson og Þórdís Karlsdóttir

 

Frágangur húss og lóðar á nýbyggingarsvæði

 

Sky Lagoon, Vesturvörn 44-48.