Börkur verður skólastjóri Smáraskóla

Smáraskóli.
Smáraskóli.

Börkur Vígþórsson

Börkur Vígþórsson verður ráðinn í stöðu skólastjóra Smáraskóla.

Börkur hefur starfað við kennslu og stjórnun í grunnskólum í rúm 30 ár, þar af hefur hann verið í hlutverki stjórnanda í 23 ár, sem aðstoðarskólastjóri og síðustu 18 ár sem skólastjóri. Börkur starfaði lengi sem grunnskólakennari í grunnskólanum á Egilsstöðum, sem aðstoðarskólastjóri á árunum 1995-2000 og sem skólastjóri sama skóla frá 2000-2006. Því næst  tók hann við starfi skólastjóra Grandaskóla 2006-2012 og nú síðast sem skólastjóri Ölduselsskóla 2012-2018. 

Börkur lauk B.Ed. námi sínu í grunnskólakennarafræðum árið 1985, 30 eininga viðbótarvalgrein í myndmennt frá KHÍ árið 1993 og Diplómu í stjórnun menntastofnana árið 2002. Hann hefur jafnframt lokið öllum námskeiðum til meistaragráðu í stjórnun menntastofnana við HÍ, utan lokaritgerð.

Börkur hefur verið farsæll skólastjóri. Hann hefur í starfi sínu öðlast góða reynslu af því að skipuleggja og leiða breytingar og þróunar- og nýbreytnistarf í þeim grunnskólum sem hann hefur stýrt og gert það í góðu samstarfi við starfsmenn og foreldra.

Börkur mun formlega hefja störf sem skólastjóri Smáraskóla þann 1. janúar 2019 þegar Friðþjófur Helgi Karlsson lætur af störfum. Fram að þeim tíma mun hann leysa af stöðu aðstoðarskólastjóra  og m.a. hafa umsjón með ráðningarferli nýs aðstoðarskólastjóra.

Við óskum Berki innilega til hamingju með starfið og hlökkum til að starfa með honum að áframhaldandi góðu skólastarfi í Smáraskóla.