Börn hjálpa börnum

Söfnun Barnahjálpar ABC hófst í Vatnsendaskóla í Kópavogi. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri hóf söfn…
Söfnun Barnahjálpar ABC hófst í Vatnsendaskóla í Kópavogi. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri hóf söfnunina sem stendur til 19. mars.

Árlega söfnun ABC barnahjálpar, Börn hjálpa börnum, hófst í Vatnsendaskóla í Kópavogi þann 28. febrúar. Bæjarstjóri Kópavogs, Ármann Kr. Ólafsson, setti söfnunina formlega af stað.  Söfnunin er haldin í 21. sinn og stendur yfir dagana 28. febrúar til 19. mars. Frá upphafi hafa nemendur grunnskóla landsins safnað um 130 milljónum króna til styrktar fátækum börnum í Afríku og Asíu. 

Framkvæmdarstjóri ABC, Laufey Birgisdóttir, hóf viðburðinn með kynningu um starfsemi samtakanna og fróðleiksfúsir nemendur hlustuðu vel og spurðu margra spurninga. Bæjarstjóri tók svo til máls og gaf fyrstu framlögin í söfnunarbaukana. Nemendur Vatnsendaskóla og fjölda annarra grunnskóla á landinu munu svo ganga um nærliggjandi hverfi sín á komandi dögum og safna fyrir hönd ABC. 

Söfnunin hefur verið hreint ómetanleg fyrir starfsemi ABC barnahjálpar. Fyrir peningana sem söfnuðust á síðasta ári var byggð ný skólabygging með tveimur fullbúnum kennslustofum í ABC skólanum í Namelok í Kenýa. Þá var hægt að endurnýja húsgögn, skólabúninga, skólatöskur og byggja nýtt eldhús í ABC skólanum í Naíróbí í Kenýa. Einnig var hægt að hjálpa til við uppbyggingu á nýjum og glæsilegum matsal í ABC skólanum í Búrkína Fasó. Að lokum styrkti söfnunin endurbyggingu á leikskóla ABC skólans í Úganda þar sem þakið var lagað og byggður var nýr veggur. 

Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á reikning: 0515-14-110000. Kt. 690688-1589