Breyting á grenndargámastöð

Grendagámar við menningartorfuna í Borgarholti.
Grendagámar við menningartorfuna í Borgarholti.

Til að rýmka fyrir bílastæðum í nágrenni sundlaugar Kópavogs hefur grenndargámastöðin við Urðarbraut verið færð á bílastæðið við menningartorfuna í Borgarholti. Á grenndargámastöðina geta íbúar skilað til endurvinnslu plastúrgangi og gleri frá heimilum. Jafnframt er Rauði krossinn með tvo söfnunargáma fyrir fataafganga og annað textíl efni sem annað hvort er endurnýtt eða endurunnið og Grænir skátar með tvo gáma fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir. Með sumrinu verður gámasvæðið girt af með snyrtilegri girðingu sem viðleitni til að fegra nágrenni hennar. Það er von Kópavogsbæjar að bæjarbúar gangi snyrtilega um svæðið og skilji ekki eftir rusl eða úrgang utan gámanna. Fyrir annan úrgang en grenndargámastöðin tekur á móti skal nota endurvinnslustöðvar Sorpu en staðsetningar þeirra er að finna á heimasíðu Sorpu, www.sorpa.is.