Nemendur í Salaskóla í Ólympíuhlaupi ÍSÍ.
Mikil ánægja ríkir á meðal foreldra og forsjáraðila í Kópavogi með íþróttastarf í bænum að því er fram kemur í Íþróttapúlsinum, nýrri þjónustumælingu á íþróttastarfsemi Kópavogsbæjar. Þannig eru 84% ánægð með líðan barna á æfingum, 87% ánægð með aðstöðu til íþróttaiðkunar, 79% ánægð með starf félaganna, og 79 % ánægð með gæði þjálfunar og starf á æfingum.
Þetta er í fyrsta sinn sem viðhorf foreldra og forsjáraðila til íþróttastarfs í bænum er könnuð með svo yfirgripsmiklum og heildstæðum hætti. Markmið könnunarinnar er að fá skýra mynd af upplifun foreldra á æfingum, þjónustu og velferð barna í íþróttafélögum í Kópavogi. Þá gefur könnunin góða mynd af því hvernig fjárfesting Kópavogsbæjar í íþróttamannvirkjum og styrkjum til íþróttafélaga skilar sér í starfi íþróttafélaganna.
„Það er ánægjulegt að sjá þessa miklu ánægju með íþróttastarf í bænum og að foreldrar meti líðan barna sinna svona hátt í starfseminni. Við leggjum ríka áherslu á velferð barna og niðurstöðurnar eru skýr vísbending um að samstarf bæjarfélagsins, íþróttafélaga og fjölskyldna er gæfuríkt. Við munum áfram hlusta á raddir íbúa og vinna að því að gera gott starf enn betra,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri.
Heildarmyndin af niðurstöðunum 2025 er afar jákvæð. Foreldrar og forsjáraðilar eru ánægðir með starf íþróttafélaganna og telja börnin hljóta góða þjálfun á góðum stað. Ábendingar um úrbætur beinast helst að betri upplýsingagjöf og samskiptum, og að vera vakandi fyrir góðu jafnvægi milli keppni og þátttöku. Þá eru 19% foreldra og forsjáraðila sammála því að erfitt sé að standa undir kostnaði við keppnisferðir sem sýnir að fjárhagslegar áskoranir eru töluverðar fyrir hluta foreldra þegar kemur að keppni utan hefðbundinna æfinga.
Könnunin sem var unnin í samstarfi við Gallup fór fram í maí síðastliðnum. Allir foreldrar forsjáraðilar í Kópavogi fengu netkönnun og tóku um 2.000 manns þátt. Sambærileg könnun verður lögð fyrir eftir tvö ár með það að leiðarljósi að Kópavogsbær geti fylgst með þróun og tryggt samfellu í umbótum. Þá munu íþróttafélögin geta nýtt niðurstöður í sínu starfi.
Nánar um Íþróttapúlsinn