Birta og Dagur Kári íþróttakona og íþróttakarl ársins 2025

Dagur Kári Ólafsson fimleikamaður úr Gerplu og Birta Georgsdóttir knattspyrnukona úr Breiðabliki vo…
Dagur Kári Ólafsson fimleikamaður úr Gerplu og Birta Georgsdóttir knattspyrnukona úr Breiðabliki voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2025.

Dagur Kári Ólafsson fimleikamaður úr Gerplu og Birta Georgsdóttir knattspyrnukona úr Breiðabliki voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2025. Í kjörinu eru það atkvæði lýðheilsu- og íþróttanefndar sem gilda 60% en íbúakosning 40%.

Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum fimmdaginn 8. janúar. Fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Björg Baldursdóttir forseti bæjarstjórnar Kópavogs afhenti þeim hvoru um sig 300 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.

Dagur Kári og Birta voru valin úr hópi 46 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu lýðheilsu- og íþróttanefndar eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.

Dagur Kári Ólafsson

Dagur Kári átti einstakt ár 2025. Hér innanlands varð hann Íslandsmeistari á bogahesti, hafnaði í 3. sæti í fjölþraut og á tvíslá og var í lykilhlutverki í liði Gerplu sem varð bikarmeistari á árinu. Á HM í Jakarta náði hann sínum stærsta árangri hingað til þegar hann tryggði sér sæti í úrslitum í fjölþraut og endaði í 24. sæti. Með þessum árangri braut hann blað í íslenskri fimleikasögu en þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur fimleikamaður nær þessum árangri. Hann keppti einnig á EM í Leipzig og á Heimsbikarmótum í París og Oijek. Í lok árs var Dagur Kári valin Fimleikakarl ársins hjá Fimleikasambandi Íslands.

Birta Georgsdóttir

Birta átti frábært tímabil með liði sínu Breiðabliki, þar sem hún varð ásamt liðsfélögum sínum bæði Íslands- og bikarmeistari í knattspyrnu kvenna. Hún var í lok tímabils valin besti leikmaður Bestu deildar kvenna og varð næstmarkahæst í deildinni með 18 mörk og 7 stoðsendingar. Birta og liðsfélagar hennar hafa einnig átt góðu gengi að fagna í evrópuleikjum sínum á árinu. Nú í lok árs tryggði liðið sér sæti í fjórðungsúrslitum UEFA Women’s Europa Cup og mætir liði Häcken í febrúar 2026. Birta er frábær fyrirmynd innan sem utan vallar. Dugnaður og metnaður hafa komið henni langt og munu án efa færa henni enn meiri árangur í framtíðinni.

Viðurkenningar

Flokkur 17 ára og eldri:

Agnes Ýr Rósmundsdóttir kraftlyftingar, Birta Georgsdóttir knattspyrna, Dagur Kári Ólafsson áhaldafimleikar, Hildur Maja Guðmundsdóttir áhaldafimleikar, Hulda Clara Gestsdóttir golf, Ingvar Ómarsson hjólreiðar, Jón Þór Sigurðsson skotíþróttir, Ragnar Smári Jónasson bogfimi, Sævar Örn Kristmannsson sund og Una Borg Garðarsdóttir karate.

Flokkur 13 til 16 ára:

Arna Kristín Arnarsdóttir karate, Arnar Daði Svavarsson golf, Aron Páll Gauksson karate, Benedikt Darri Malmquist Garðarsson borðtennis, Birgir Hrafn Andrason dans, Birkir Þorsteinsson knattspyrna, Bjarki Freyr Sindrason handknattleikur, Bjarki Örn Brynjarsson knattspyrna, Eiður Fannar Gapunay dans, Elín Þóra Jóhannesdóttir fimleikar, Elísa Birta Káradóttir knattspyrna, Elsa Hlín Sigurðardóttir knattspyrna, Embla Hrönn Hallsdóttir golf, Emilía Ísis Nökkvadóttir dans, Eyrún Svala Gustavsdóttir frjálsar, Fabian Sawicki dans, Freyr Jökull Jónsson körfuknattleikur, Gerður Líf Stefánsdóttir tennis, Hekla Sóley Halldórsdóttir handknattleikur, Hilmir Páll Hannesson hestaíþróttir, Jón Ingvar Eyþórsson sund, Kári Pálmason fimleikar, Kári Vagn Birkisson pílukast, Kristín Rut Jónsdóttir hestaíþróttir, Lena Guðrún Tamara Pétursdóttir dans, Magnús Darri Markússon bogfimi, Ómar Páll Jónasson tennis, Patrekur Ómar Haraldsson frjálsar, Rakel Sara Pétursdóttir fimleikar, Símon Þór Gregorsson blak, Soffía Ísabella Bjarnadóttir dans, Sóldís Inga Gunnarsdóttir bogfimi, Sólveig Freyja Hákonardóttir sund, Telma Hrönn Loftsdóttir körfuknattleikur, Viktoría Björk Harðardóttir skíði, Þorbjörg Rún Emilsdóttir blak.

Flokkur ársins

Flokkur ársins 2025 var kjörinn meistaraflokkur Breiðabliks í knattspyrnu kvenna en liðið varð bæði Íslands- og bikarmeistari á árinu og er að auki komið í 8 liða úrslit í Evrópubikarkeppni kvenna.

Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir alþjóðlega meistara, Sjálfboðaliða ársins og fyrir eftirtektaverðan árangur.