Kópavogur fagnar 70 ára afmæli

Afmælishátíð í Kópavogi verður dagana 9.-13.maí.
Afmælishátíð í Kópavogi verður dagana 9.-13.maí.

Mikið verður um dýrðir í Kópavogi í vikunni en bæjarfélagið fagnar 70 ára afmæli sunnudaginn 11. maí. Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, sækir bæinn heim á sunnudag og tekur þátt í Barnamenningarhátíð sem verður með afmælisbrag.

Leik- og grunnskólabörn í Kópavogi hafa tekið þátt í undirbúningi að Barnamenningarhátíð Kópavogs sem nær hápunkti sínum um helgina í og við menningarhús bæjarins. Boðið verður upp á afmælisköku í Smáralind á laugardag og efnt verður til götugöngu í Kópavogsdal á þriðjudag.

„Haldið verður upp á sjötugsafmæli Kópavogsbæjar með skemmtilegum viðburðum fyrir unga og aldna. Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, mun sækja okkur heim á Barnamenningarhátíð sem er mikill heiður en Barnamenningarhátíð verður að þessu sinni með afmælisbrag og sérlega glæsileg. Þá verður boðið upp á afmælisköku í Smáralind og félagsmiðstöðvum eldri borgara svo eitthvað sé nefnt. Ég hlakka mikið til að hitta íbúa og aðra gesti í afmælisskapi,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri.

Dagskrá afmælishátíðar:

  • Föstudaginn 9.maí: Boðið upp á afmælisköku í félagsmiðstöðvum eldri borgara.
  • Laugardag 10.maí kl. 14: Afmæliskaka á boðstólum í Smáralind frá klukkan 14.00. Bæjarstjóri Kópavogs og bæjarfulltrúar mæta og gefa gestum og gangandi ljúffenga afmælisköku í tilefni sjötugsafmælis bæjarins. Blöðrulistamenn og Samkór Kópavogs.
  • Laugardagur 10.maí kl. 11-17: Uppskeruhátíð Barnamenningarhátíðar: Smiðjur og fjör í Bókasafni Kópavogs og Náttúrufræðistofu.
  • Sunnudagur 11.maí 12-17: Uppskeruhátíð Barnamenningarhátíðar: Smiðjur, Rauðhetta og úlfurinn, Dj. Sunna Ben, Glimmersturta og afmælislög með skólakórum úr Kópavogi, stultur, sápukúlur, vesen og vatnsull með Memm á útisvæði við menningarhúsin og margt fleira.
  • Þriðjudaginn 13.maí kl. 13: Götuganga Virkni og vellíðan í Kópavogsdal.

Árið 2025 er bryddað upp á ýmsu skemmtilegu í Kópavogi til að halda upp á sjötíu ára afmæli bæjarins. Íbúum bæjarins sem fagna sjötugsafmæli í ár var boðið til veislu í janúar. Afmælistónleikar Össurar Geirssonar, heiðurslistamanns, fóru fram í Norðurljósasal Hörpu í mars. Að auki fá allir íbúar bæjarins, 17 ára og eldri, menningargjöf frá bænum og geta sótt sér árskort í Gerðarsafn eða inneign á tónleikaröðina Tíbrá í Salnum. Fleiri afmælisviðburðir verða á árinu sem kynntir verða síðar.

 

 

[Vm1]Komið frá mér