Fellasmári er gata ársins

Fellasmári er gata ársins 2023.
Fellasmári er gata ársins 2023.

Fellasmári er gata ársins í Kópavogi 2023. Tilkynnt var um valið þegar viðurkenningar umhverfis- og samgöngunefndar voru veittar, fimmtudaginn 14.september en bæjarstjórn Kópavogs velur ár hvert götu ársins.

Auk þess voru veittar viðurkenningar fyrir endurgerð húsnæðis og umhirðu húss og lóðar og voru það formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Bergur Þorri Benjamínsson og bæjarstjóri, Ásdís Kristjánsdóttir, sem afhentu þær. 

Verðlaunahafar voru svo sóttir heim í tilefni dagsins og þá var gróðursett reynitré í Fellasmára. Orri Hlöðversson formaður bæjarráðs gróðursetti tréið með aðstoð ungra Kópavogsbúa.

Um Fellasmára segir í umsögn:

„Fellasmári er glæsileg gata í skemmtilegu íbúðahverfi á Nónhæðinni. Gatan einkennist af snyrtilegum og vel hirtum lóðum sem saman mynda fallega heildarmynd. Húsin í götunni voru öll byggð á tíunda áratug síðustu aldar, þegar Kópavogsbær var í miklum vexti, en ásýnd götunnar einkennist af tíðaranda aldamótanna með nútímalegum blæ.

Fellasmári er botnlangagata þar sem keyrt er inn vestanverðu frá Arnarsmára. Í eystri enda götunnar má finna fallegt beð með fjölbreyttum gróðri sem gefur götunni fallegt yfirbragð. Í götunni eru tvö parhús / tvíbýli ásamt tveimur raðhúsalengjum með fjórum íbúðum annarsvegar og fimm hinsvegar.

Íbúar götunnar hafa hugað vel að umhverfi sínu og eru öðrum íbúum Kópavogs hvatning og fyrirmynd.“

Í flokknum endurgerð húsnæðis voru veittar viðurkenningar fyrir Kársnesbraut 33 og Mánabraut 7.

Í flokknum umhirða húss og lóðar fengu viðurkenningu Skjólsalir 11 og Grænatunga 7.

Nánar um umhverfisviðurkenningarnar