Ingibjörg Þ. Ólafsdóttir er sjálfboðaliði ársins

Ingibjörg Þ. Ólafsdóttir sjálfboðaliði ársins ásamt Sunnu Guðmundsdóttur varaformanni lýðheilsu- o…
Ingibjörg Þ. Ólafsdóttir sjálfboðaliði ársins ásamt Sunnu Guðmundsdóttur varaformanni lýðheilsu- og íþróttanefndar. Ingibjörg er hægra megin á myndinni.

Sjálfboðaliði ársins 2025 í íþróttastarfi í Kópavogi er Ingibjörg Þ. Ólafsdóttir. Valið á sjálfboðaliða ársins var tilkynnt á íþróttahátíð Kópavogs en þetta er í þriðja sinn sem sjálfboðaliði ársins er valinn af lýðheilsu- og íþróttanefnd.

Ingibjörg hefur verið drifkraftur í starfi GKG allt frá því að hún hóf að stunda golf árið 2014. Frá upphafi hefur hún boðið sig fram til hinna ýmsu verkefna, og er ávallt reiðubúin til aðstoðar eða að stýra stórum sem smáum verkefnum. Hún er afar gefandi og ósérhlífin þegar kemur að sjálfboðaliðastarfi fyrir sinn klúbb og golfhreyfinguna, óteljandi klukkustundir bera þess merki.

Eftirfarandi verkefni, sem Ingibjörg á mestan heiður af, hafa skapað sér fastan sess í öflugu félagsstarfi GKG:

  • Liðakeppni GKG, sem stofnuð var 2019, er orðin gríðarlega vinsæl. Ingibjörg hefur haldið utan um úrslit, hvatningu og fréttaflutning af mikilli festu.
  • Hún kom af stað „Ljósamótinu“ sem er eitt af haustmótunum GKG. Undanfarin ár hefur allur ágóði af mótinu runnið til æfingaferða barna/unglinga og afreksstarfsins.
  • Ingibjörg hefur tekið viðtöl við hina ýmsu félagsmenn unga sem aldna, undir yfirskriftinni „Hvað segir GKG kylfingurinn?“ Þessi viðtöl eru birt mánaðarlega yfir vetrartímann.
  • Hún var stjórnarmaður í GKG frá 2017-2022 og sýndi hversu mikilvægt það er að vera virkur sjálfboðaliði sem drífur áfram þau verkefni og viðburði sem eru svo mikilvæg fyrir golfklúbb.
  • Í almennu mótahaldi er Ingibjörg alltaf reiðubúin til að aðstoða við skorskráningu, ræsingu, eða önnur verkefni sem þarf að leysa. Hún stundar sitt golf af kappi allt árið um kring og er mikil fyrirmynd okkar allra sem jákvæður dugnaðarforkur.