Kynntu fjárfestingu í réttindum barna

Marín Rós Eyjólfsdóttur og Amanda K. Ólafsdóttir á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna.
Marín Rós Eyjólfsdóttur og Amanda K. Ólafsdóttir á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna.

Kópavogur tók þátt í fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna þar sem fjallað var um fjárfestingu í réttindum barna sem samfélagslega arðbæra og mikilvæga leið til að tryggja betri framtíð allra barna.

Amanda K. Ólafsdóttir, skrifstofustjóri menntasviðs Kópavogsbæjar, flutti erindi ásamt Marín Rós Eyjólfsdóttur verkefnastjóra Barnvænna sveitarfélaga hjá UNICEF á Íslandi. Í erindi þeirra var lögð áhersla á hvernig fjárfesting í réttindum barna skilar ávinningi bæði til samfélagsins í heild og einstakra barna.

Kópavogur fékk viðurkenningu UNICEF sem Barnvænt sveitarfélag árið 2021 og var hún endurnýjuð árið 2024. Amanda kynnti nokkur af þeim verkefnum sem hafa eflt barnvænt samfélag í Kópavogi á undanförnum árum, meðal annars:

  • Mælaborð barna, þróað í samstarfi við UNICEF og safnar gögnum um heilsu, menntun, félagslega þátttöku og öryggi barna. Tryggir áreiðanleg gögn til upplýstrar ákvörðunartöku um málefni barna.
  • Barnaþing Kópavogs, þar sem raddir barna og þátttaka móta forgangsröðun verkefna í málefnum barna í sveitarfélaginu.
  • Okkar Kópavogur, þar sem nemendur fá fjármagn til að úthluta í verkefni að eigin vali eftir lýðræðislega kosningu. Verkefnið eflir lýðræðislega virkni barna um mótun og þróun eigin skólaumhverfis.
  • Tákn barnaverndar, app sem er staðsett í öllum spjaldtölvum nemanda í 1.-10.bekk í grunnskólum Kópavogs. Táknið á að auðvelda börnum að tilkynna beint til barnaverndar um áhyggjur sínar, ofbeldi, vanlíðan og áhættuhegðun þeirra sjálfra og eða vina sinna.

„Við erum mjög stolt af því að vera Barnvænt sveitarfélag og höfum unnið markvisst að því að innleiða Barnasáttmálann í stjórnsýslu og störf bæjarins. Fjárfesting í réttindum barna er hagkvæm fjárfesting í framtíðinni,“ sagði Amanda K. Ólafsdóttir í erindinu.