Loftur stýrir skrifstofu þjónustu

Loftur Steinar Loftsson stýrir nýrri skrifstofu þjónustu hjá Kópavogsbæ.
Loftur Steinar Loftsson stýrir nýrri skrifstofu þjónustu hjá Kópavogsbæ.

Loftur Steinar Loftsson hefur verið ráðinn til að stýra nýrri skrifstofu þjónustu hjá Kópavogsbæ. Loftur hefur umfangsmikla starfsreynslu á sviði upplýsingatækni, kerfisstjórnar og tæknireksturs, stafrænnar umbreytingar og rekstrar. Loftur hefur einnig starfað að þjónustustýringu og komið að útboðsmálum.

„Það er spennandi áskorun að leiða nýja skrifstofu sem sameinar þjónustu við íbúa og aðra notendur hvort sem er í gegnum öflugt þjónustuver okkar eða á sviði upplýsingatækni, stafrænnar þjónustu og kerfa,“ segir Loftur.

„Skrifstofa þjónustu varð til við skipulagsbreytingar í vor og þar eru mikil tækifæri til þess að vinna að breytingum, íbúum og öðrum notendum þjónustunnar til hagsbóta. Það er fengur að því að fá stjórnanda til starfa sem hefur jafn umfangsmikla reynslu og Loftur,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.

Loftur hefur undanfarið starfað sem forstöðumaður upplýsingatækniumhverfis hjá Brim þar sem meginhluti starfans fólst í að stýra verktökum og samningum vegna útvistunar upplýsingatækniumhverfis. Áður starfaði hann hjá Reykjavíkurborg sem deildarstjóri tæknireksturs og bar meðal annars ábyrgð á þróunarteymum sem sáu um þróun lausna fyrir stafræna umbreytingu Reykjavíkurborgar. Loftur starfaði í upplýsingatæknideild Marel í 20 ár og sá síðustu 10 árin um rekstur á alþjóðlegu hugbúnaðarteymi.

Loftur er stofnandi ráðgjafafyrirtækisins Conligo.is, þar sem megináherslan var á aðstoð við fyrirtæki sem voru að taka sín fyrstu skref í stafrænni þróun og vegferð.

Loftur hefur lokið námi í tölvunarfræði og kerfisfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur að auki sótt ýmis námskeið fyrir stjórnendur, jafnt innanlands og erlendis.