Notaleg aðventa í Kópavogi

Notalegir viðburðir á aðventunni í Kópavogi.
Notalegir viðburðir á aðventunni í Kópavogi.

Aðventan og jólaundirbúningurinn verða notaleg í Kópavogi en boðið verður upp á fjölda viðburða og notalega stemningu í bænum í aðdraganda jóla.

Í menningarhúsunum verður fjölbreytt dagskrá alla aðventuna, svo sem árlegt jólabókaspjall í umsjón Guðrúnar Sóleyjar á bókasafninu, jólatónleikar í Salnum og smiðjur í Bókasafni Kópavogs. Í Guðmundarlundi verður Jólalundur alla sunnudaga auk þess sem leikritið Jólaskógur er á sínum stað.

Þá verður Aðventuhátíð Kópavogs þann 29.nóvember. Frá 15 til 16.30 verður boðið upp á smiðjur og lifandi tónlist í menningarhúsum bæjarins sem eru Gerðarsafn, Salurinn, Náttúrusafn Kópavogs og Bókasafn Kópavogs. Frá 16.30 er útiskemmtun með tónlist og jólasvein. Hápunktur hátíðarinnar er svo þegar tendrað er á jólatré bæjarins.

Í desember verður jólahús Kópavogs valið og verður að venju leitað eftir tilnefningum hjá íbúum bæjarins.

Bætt hefur verið við jóla- og skammdegislýsingu í Kópavogsbæ. Kópavogsdalur er fagurlega lýstur sem er hugmynd íbúa bæjarins úr Okkar Kópavogi. Þá hefur verið aukið við lýsingu í efri byggðir bæjarins.

Finna má yfirlit viðburða í viðburðadagatali menningarhúsa.