Opið hús í Barnaskóla Kársness

Gerður Magnúsdóttir skólastjóri og Guðbjartur Ólason aðstoðarskólastjóri.
Gerður Magnúsdóttir skólastjóri og Guðbjartur Ólason aðstoðarskólastjóri.

Opið hús verður í Barnaskóla Kársness laugardaginn 29.nóvember frá 11 til 14.

Börn í Barnaskólanum munu bjóða upp á tónlistaratriði og boðið verður upp á léttar veitingar. Starfsfólk tekur á móti gestum sem geta farið um og skoðað nýjasta skóla bæjarins sem vakið hefur athygli fyrir glæsilega hönnun.

„Við hlökkum til að hitta gesti og vonumst til þess að sem flestir mæti, nágrannar okkar úr hverfinu, foreldrar og önnur áhugasöm úr hópi íbúa og víðar. Okkur líður afar vel í Barnaskóla Kársness, þetta er afar fallegt hús með frábærri hljóðvist sem skiptir miklu máli í skólastarfi,“ segir Gerður Magnúsdóttir skólastjóri.

Barnaskóli Kársness er fyrsti samrekni leik- og grunnskóli í bænum og þannig mikilvægur áfangi í þróun menntunar og frístundar í bænum.

Þess má geta að skólabyggingin er Svansvottuð, sú fyrsta á landinu sem fær þá vottun.

Cowi sá um heildarhönnun á Barnaskóla Kársness en Batteríið og Landslag ehf. voru í teyminu með Cowi. Hönnunarstjóri hönnunarteymisins var Jón Ólafur Ólafsson arkitekt.

Skólinn var tekinn í notkun í ágúst en í honum eru um 400 börn frá leikskólaaldri og upp í 4.bekk grunnskóla. Skólinn stendur við Skólagerði 8.